135. löggjafarþing — 106. fundur,  22. maí 2008.

leikskólar.

287. mál
[16:17]
Hlusta

Guðni Ágústsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur fyrir ágæta ræðu og það efni sem hún tók fyrir í sinni ræðu. Ég held að þetta sé stórt mál. Þegar maður horfir yfir samtíma sinn síðustu áratugi þá er kannski einhver mesti árangur sem við höfum náð í samfélaginu til breytinga aðbúnaður gagnvart fötluðu fólki. Ég geri mér grein fyrir því að þar er engin lokahöfn enn þá. Við getum náð enn meiri árangri og það er mjög mikilvægt, eins og kom fram í máli hv. þingmanns, að sveitarfélögin og ríkið ræði saman um þetta stóra verkefni, allar þær þarfir sem hið fatlaða barn þarf, öll sú umhyggja sem foreldrar fatlaðra barna þurfa á að halda og hjálp til að geta varðveitt barnið á sínu eigin heimili. Skólinn þarf mikla aðstoð og maður hefur orðið var við það stundum í litlu samfélagi þar sem eru hlutfallslega mörg fötluð börn að það kemur upp ágreiningur og farið er að tala um kostnað og svo framvegis af hinum fatlaða og veldur deilum í sveitarfélaginu. Þetta má ekki gerast í íslensku samfélagi. Ég vil því spyrja hv. þingmann hvernig hún sjái þetta fyrir sér og hvað sé hægt að gera því ég tek undir að félagsþjónusta sveitarfélaganna og sveitarfélögin þurfi að vera vel undir þetta búin því margir einstaklingar sem við þekkjum í gegnum lífið, náðu fullorðinsaldri, fengu aldrei þá samhjálp sem þeir þurftu á að halda. Við erum kannski öll fötluð. Við finnum það samt sem áður og erum öll fötluð á einhvern hátt. Við finnum það líka hvað samhjálp dagsins, ef hún er látin fram, og þekkingin sem (Forseti hringir.) til er í dag, getur skilað miklu til að örva þann sem á undir högg að sækja af einhverjum ástæðum.