135. löggjafarþing — 106. fundur,  22. maí 2008.

leikskólar.

287. mál
[16:19]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Já, það er rétt hjá hv. þingmanni að þetta er málaflokkur eða þessir þættir málanna þ.e. staða fatlaðra barna innan skólakerfisins er viðamikið verkefni sem aldrei tekur enda og við komumst aldrei í höfn með það.

Mínar tillögur hvað þetta varðar getur að líta á þskj. 1071 þar sem ég hef lagt fram breytingartillögur. Ég veit að Framsóknarflokkurinn, þingflokkur Framsóknarflokksins, hefur kynnt sér breytingartillögur mínar og ég tel að í þeim þingflokki sé talsverður stuðningur við þær og ég treysti því auðvitað að þingflokkurinn komi til liðs við okkur og mig í þessum efnum. Þar set ég fram nýjan kafla í lagafrumvarpið sem ég kalla Nemendur. Mér hefur reyndar verið bent á að kannski væri skynsamlegra að kalla hann Leikskólabörn og ég fellst á það sjónarmið. Þar geri ég ráð fyrir að sett sé í frumvarpið að nemendur eða leikskólabörn eigi rétt á því að komið sé til móts við þarfir þeirra í almennum leikskólum án aðgreiningar, án tillits til líkamlegs eða andlegs atgervis, að heyrnarlausum nemendum skuli tryggt málumhverfi svo þeir fái notið þeirrar menntunar og leikskilyrða sem leikskólinn hefur upp á að bjóða og að leikskólar geri sérstaka móttökuáætlun vegna barna sem hafi annað móðurmál en íslensku og þá er ég bæði að tala um erlend börn eða börn af erlendum uppruna og börn sem hafa táknmál sem móðurmál. Það þarf að tryggja að öll þessi börn og foreldrar þeirra fái aðgang að öllum upplýsingum um skólastarfið og framvindu þess.

Sömuleiðis legg ég til að ekki verði einungis stuðlað að því eða leitast við að tryggja að foreldrar heyrnarlausra barna fái túlkaþjónustu heldur að það verði skylda að foreldrar heyrnarlausra barna eða heyrnarlausir foreldrar öllu heldur fái þá túlkaþjónustu sem nauðsynleg er til að þær upplýsingar sem þessir foreldrar þurfi á að halda skili sér. Í breytingartillöguskjali mínu eru því (Forseti hringir.) breytingartillögur sem ég tel að eigi að vera til mikilla bóta.