135. löggjafarþing — 106. fundur,  22. maí 2008.

leikskólar.

287. mál
[17:47]
Hlusta

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Mjög ítarlega hefur verið farið yfir leikskólafrumvarpið af hv. þingmönnum allra flokka og umræðan hefur verið afskaplega góð og málefnaleg. Ég fagna því að hún hafi farið fram, við erum að setja lög sem vonandi verða í gildi mörg ár ef ekki áratugi og það er mikilvægt að vandað sé til þeirra.

Hv. þm. Birkir Jón Jónsson minnti á það að hér á eftir verður tekið til umræðu mál framhaldsskólanna, sem er ekki síður mikilvægt. Við höfum beðið um tvöfaldan ræðutíma þar sem það frumvarp er mjög umdeilt og hefur alls ekki fengið sömu þinglegu meðferð og bæði leikskólafrumvarpið og grunnskólafrumvarpið. Ég segi eins og hv. þingmaður að ég trúi ekki fyrr en ég tek á því að ræða eigi það hér í nótt.

Mig langaði til að ræða eitt atriði sem ég átti eftir að minnast á. Mikil umræða átti sér stað í nefndinni um VII. kafla frumvarpsins sem hefur að geyma nýmæli um mat og eftirlit með gæðum leikskólastarfs. Í umsögnum sveitarfélaganna koma almennt fram miklar athugasemdir við ákvæði kaflans þess efnis að verið sé að leggja auknar og óraunhæfar skyldur á herðar sveitarfélaga sem ekki séu nægjanlega vel rökstuddar, til að mynda í 1. mgr. 19. gr. sem kveður á um árlega upplýsingagjöf til ráðuneytis. Krafa um árlegar upplýsingar sem þessar muni auka útgjöld þeirra til muna og verði minni sveitarfélög að kaupa þjónustu fagaðila til að framkvæma ytra mat. Þá efast sveitarfélögin um að ráðuneytið hafi svigrúm til að vinna úr þeim gríðarlega miklu upplýsingum innra og ytra mats sem árlega munu berast.

Ég sakna þess kannski í frumvarpinu að það sjónarmið komi fram að sveitarfélögin væru einfaldlega að vinna upplýsingar upp í hendurnar á menntamálaráðuneytinu sem mundu svo jafnvel enda í einhverri skúffu og þetta væru upplýsingar sem menntamálaráðuneytið ætti að vinna með. Eðlilegra hefði verið að þetta hefði einfaldlega verið hjá ráðuneytinu, ráðuneytið sæi um þetta mat eða stýrði því a.m.k. hvernig það færi fram. Af því að hv. þm. Birkir Jón Jónsson ræddi hér bágborna stöðu ýmissa sveitarfélaga og minnti á að þjónusta þeirra snýst um börn og ungt fólk er mjög mikilsvert að betur hefði verið gætt að þessum þætti.

Í meðförum nefndarinnar kom fram af hálfu menntamálaráðuneytisins að sá háttur verði ekki hafður á að gerð verði krafa um formlega ársskýrslu eða ítarlegri upplýsingar en nú þegar er krafist samkvæmt reglugerð um upplýsingaskyldu sveitarfélaga um skólahald, nr. 384/1996. Ég legg þá mikla áherslu á að þannig verði framkvæmdin í meðförum menntamálaráðuneytisins.

Í athugasemdum við 19. gr. frumvarpsins segir líka að stærsti hluti leikskólastjóra sem reynslu hafa af ytra mati telji að það hafi jákvæð áhrif á skólastarfið, veiti mikilvægt aðhald og sé gott stýritæki við stefnumótun. Slíkt aðhald fari ekki síst fram með því að veita kerfisbundið skýrar upplýsingar um starfsemi skólanna, það er mjög mikilvægt að þetta sé við lýði en umfang þess má alls ekki verða of mikið.

Í meðförum nefndarinnar var ákveðið að þessi skylda, um að sveitarfélögin ættu að láta upplýsingar af hendi á hverju ári, yrði tekin út, og fagna ég því. Í álitinu segir að árleg upplýsingaskylda sé fullíþyngjandi og ekki sé nauðsynlegt að (Forseti hringir.) allra upplýsinga verði aflað á hverju ári.

Að lokum vil ég þakka fyrir þá umræðu sem hér hefur farið fram. Vonandi verða umræður um grunnskólafrumvarpið og framhaldsskólafrumvarpið jafnmálefnalegar (Forseti hringir.) og þessi umræða hefur verið.