135. löggjafarþing — 106. fundur,  22. maí 2008.

grunnskólar.

285. mál
[18:30]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir mjög ítarlega ræðu. Ég hefði reyndar viljað að aðeins nánar hefði verið farið í ákveðna þætti en tímatakmörkin eru þessi. Ég vildi þó spyrja um eitt atriði sem er mér hugleikið en það er staða fámennra skóla á landsbyggðinni. Minnst er almennum orðum á rétt nemenda, að þeir skuli geta sótt skóla með eðlilegum hætti o.s.frv. En við þekkjum að oft þarf að aka um langan veg. Þessir litlu skólar eru oft hjarta viðkomandi samfélaga. Gríðarlegur þrýstingur virðist vera á að loka þessum litlu skólum víða á landsbyggðinni.

Nú getur vel verið að það standi einhvers staðar í frumvarpinu, frú forseti, það sem lýtur að þeirri sérstöðu sem þarna er um að ræða, bæði hvað varðar akstur og vegalengd til og frá skóla og það að staðinn sé vörður um samfélagslegan rétt íbúa á strjálbýlum svæðum til þess að fá að halda sínum litlu skólum. Þetta eru innantökur í mörgum samfélögum, átök um tilvist þessara litlu skóla og þrýstingur á sveitarfélög eftir sameiningar og þess háttar að loka minni skólum sem hafa gríðarleg áhrif á viðkomandi samfélag.

Mér eru þessi mál hugleikin og spyr því, frú forseti, hvort í frumvarpinu sé vikið að þessari stöðu.