135. löggjafarþing — 106. fundur,  22. maí 2008.

grunnskólar.

285. mál
[20:10]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hvað varðar þetta álitamál skiptir máli að þeir samningar sem sveitarfélögin gera við skóla séu þannig frágengnir að þeir endurspegli lögin. Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef úr ritgerð Hafdísar Gísladóttur varðandi Landakotsskóla mun réttarstaða nemenda ekki vera eins skýr þar, hvorki þessi lög um grunnskóla og reglugerð byggð á þeim né sá samningur sem er í gildi á milli menntasviðs Reykajvíkur og Landakotsskóla muni hafa að geyma þau ákvæði sem nægja til þess að stjórnsýslulögin og þær málsmeðferðarreglur sem þau mæla fyrir um gildi í einu og öllu.

Hér er álitamál sem mér hafði ekki borist til eyrna eða vitneskja um meðan við vorum að fjalla um málið í nefndinni. Ég tel eðlilegt að við kíkjum á það á milli 2. og 3. umr. og komumst þá endanlega til botns í því vegna þess að ég er algerlega sammála hv. þm. Ragnheiði Ríkharðsdóttur að það þarf að taka af öll tvímæli og tryggja það þegar við framseljum vald okkar. Ef við viljum gera það, sem ég er reyndar mótfallin, þá verði það gert með þeim hætti að það sé algerlega gulltryggt að réttur nemenda og foreldra þeirra sé ekki fyrir borð borinn að neinu leyti.