135. löggjafarþing — 106. fundur,  22. maí 2008.

grunnskólar.

285. mál
[21:26]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Nei, það þarf að sjálfsögðu ekki að gera það ef réttilega er að þessu öllu saman staðið. Við þurfum að uppfylla í fyrsta lagi trúfrelsisákvæði stjórnarskrárinnar þannig að það sé hafið yfir vafa. Við þurfum í öðru lagi að tryggja að það læðist ekki aftan að okkur tilhneigingar til einhvers konar trúarinnrætingar í skjóli þess að trúarbrögð — og ég tala nú ekki um ef ein tiltekin trúarbrögð eru sérstaklega hafin fram, nefnd og greind í lögum um skólahald. Við vitum að þetta er vandasamt, við vitum að þarna verða stundum árekstrar og við þurfum að gæta okkar þannig að við tryggjum sem best réttindi og stöðu allra. Að í skólum geti verið hlið við hlið börn frá kristnum heimilum, mjög trúuðum og þar sem bænahald er stundað og börn af öðrum trúarbrögðum, börn foreldra sem ekki hafa innrætt börnum sínum neina trú af þeirri einföldu ástæðu að þeir hafa hana ekki sjálfir. Þeir byggja lífsskoðun sína á öðrum gildum og hafa til þess fullan rétt, stjórnarskrárvarinn rétt, eins og allir aðrir í þessu sambandi.

Hér hafa auðvitað verið nefnd dæmi til sögunnar, samanber fordæmið frá Noregi og dóminn þar sem sprettur ekki upp úr engu. Hann sprettur upp úr því að upp geta komið vandamál af því tagi sem þar urðu tilefni málaferlanna. Ég hafna engu í þessum efnum og geri ekki kröfur um að strokað sé yfir stærð kristninnar í okkar trúarlegu og menningarlegu arfleifð, ég vonaði að það kæmi skýrt fram í mínu máli. Ég er bara að reyna að rökræða hvernig við búum skynsamlegast um þessa þætti þannig að ekki verði árekstrar eða núningur.