135. löggjafarþing — 106. fundur,  22. maí 2008.

grunnskólar.

285. mál
[21:30]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég átta mig ekki alveg á því hvert hv. þingmaður er að fara þegar hann talar um trúarofstæki og skort á umburðarlyndi og annað slíkt. Ég bið hann þá að finna því stað að í orðum mínum og þeim viðhorfum sem ég lýsti, hafi nokkuð slíkt falist sem gefi tilefni til slíkrar orðanotkunar hér í andsvari. Ég hafna því algerlega.

Ef einhver stígur freklega á tilfinningar fólks sem alið er upp í kristinni trú þá spyr ég: Hver er það? Er það frumvarp menntamálaráðherra vegna þess að það nefnir hana ekki? Eða er það sú hugmynd mín að tala frekar um trúarlega arfleifð en kristna arfleifð og með ítarlegum rökstuðningi sem ég færði fram og að sýna umburðarlyndi og víðsýni gagnvart öllum, hv. þm. Bjarni Harðarson, ekki bara sumum, gagnvart öllum. Það er nefnilega það sem er fólgið í trúfrelsisákvæðinu, það þýðir umburðarlyndi, víðsýni og skilningur, ekki bara gagnvart sumum heldur öllum. Það er það sem trúfrelsi snýst um.

Svo ætla ég að segja eitt við hv. þingmann: Ég er honum sammála að trúarofstæki og bókstafstrú eru mikið böl í heiminum og skelfilegir hlutir gerast í skjóli þess í raun og veru í meira og minna í öllum trúarbrögðum. Sennilega eru ákveðin austræn trúarbrögð þó helst laus við þetta, trúarbrögð sem renna saman við heimspeki og lífsskoðanir á mörg þúsund ára grundvelli í austrinu. Kristin trú, íslam og fleiri slíkar eru hins vegar því miður mjög undir þá sök seldar oft í samtímanum að þar vaða uppi bókstafstrúarmenn og þröngsýnismenn miklir og það er hættulegt.

Ef það er þó eitthvað sem er hættulegt er það að blanda saman pólitík og trúmálum. Það væri fróðlegt að vita hvort hv. þingmaður hefur lesið bók Jimmys Carters sem sjálfur er sanntrúaður baptisti og hóf hvern einasta dag í Hvíta húsinu með bæn en berst hatrammlega gegn öllum hugmyndum um að blanda saman trúarbrögðum og stjórnmálum og vill verja með kjafti og klóm trúfrelsi (Forseti hringir.) í anda víðsýni. Ég held að það væri að mörgu leyti fróðlegt fyrir þá sem vilja fara dýpra ofan í þessa hluti að lesa skrif fyrrverandi forseta (Forseti hringir.) Bandaríkjanna, Jimmys Carters, um þessi mál.