135. löggjafarþing — 106. fundur,  22. maí 2008.

grunnskólar.

285. mál
[22:17]
Hlusta

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Í fyrsta lagi langar mig að benda hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur á að kynna sér athugasemdir Gunnlaugs Júlíussonar hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga vegna skýrslu Ríkisendurskoðunar og jöfnunarsjóðsins. Það er fróðleg lesning og hægt er að nálgast hana hjá Gunnlaugi Júlíussyni hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga.

Í öðru lagi langar mig að spyrja hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur þegar hún segir að binda eigi í lög að finnist ekki sérúrræði fyrir nemendur innan grunnskólans í hverju sveitarfélagi eigi að skuldbinda sveitarfélögin til þess að stofna sérskóla, ef ég skildi þingmanninn rétt, hæstv. forseti. Þá spyr ég: Er þingmaðurinn virkilega að ræða það að ef ekki finnst sérúrræði í einhverju sveitarfélagi fyrir einn eða tvo eða jafnvel þrjá nemendur, þá eigi að skikka sveitarfélögin til þess að stofna sérskóla með öllu því batteríi sem því fylgir utan um jafnvel tvo eða þrjá nemendur?