135. löggjafarþing — 106. fundur,  22. maí 2008.

grunnskólar.

285. mál
[22:42]
Hlusta

Árni Johnsen (S):

Herra forseti. Ég hef með mér hina helgu bók, Biblíuna, í ræðustól og, með leyfi forseta, vitna ég í séra Halldór Kolbeins, prest frá Ofanleiti í Vestmannaeyjum, sem sagði gjarnan í húsheimsóknum: „Hér sé guð og hér sé friður. Er nokkuð að borða?“

Þetta er kannski meginkjarni alls þess sem við þurfum að hugsa um og skipta okkur af, að hafa andlega nestið í lagi og það veraldlega einnig. Um það snýst lífið í hnotskurn. Það er hlýlegt að sjá hæstv. iðnaðarráðherra Össur Skarphéðinsson brosa fallega við þessum orðum. (Iðnrh.: Alinn upp hjá sjöundadagsaðventistum.) Rétt, alinn upp hjá sjöundadagsaðventistum, góðu fólki og einstaklega traustu.

Herra forseti. Hér hefur verið fjallað nokkuð um ákveðna breytingu á grunnorðalagi í hlutverki námskrárverkefna grunnskólakerfisins og þá er ekki deilt um mörg orð. Það er breytingin úr orðunum „kristilegt siðgæði“ í kristin arfleifð íslenskrar menningar. Hvort tveggja stendur fyrir sínu en tilfærslan frá kristilegu siðgæði í kristna arfleifð íslenskrar menningar hefur afsökunartón í sjálfu sér og það er miður. Þá er látið undan dekurrófum víða um heim, trúleysingjum, stjórnleysingjum, fólki sem hugsar mest um sjálft sig og síður um að sinna náunganum af kærleik og góðvild. Fólki sem hugsar ekki mikið um að rækta lítillæti, þakklæti og auðmýkt sem eru grundvallaratriði í því að maður sé manns gaman án þess að nokkur skemmist. Þetta er millileið.

Ég tek undir orð hv. þm. Guðna Ágústssonar að það er miður að menn skuli slaka á klónni. Sumt þarf að vera strekkt, sumt þarf að vera fast. Íslensk trúarbragðafræðsla, íslenskur kristindómur hefur verið ankeri Íslendinga í gegnum þúsund alda nið og hefur alltaf reynst okkur vel þó að í engu í þeim efnum né öðru sé hægt að túlka endalausar og faglegar lausnir. Lífið leikur ekki þannig. Það skiptir líka miklu máli í þessari umræðu að fjalla af einurð um mikilvægi þess að kristindómsfræðsla sé tryggð áfram á Íslandi af metnaði, skilningi og reisn sem vera ber. Kristindómur er okkar ankeri, við yrðum ankeri annarra þjóða sem hafa önnur trúarbrögð en við skulum ekki grugga þetta saman, blanda þessu saman því að það á ekki samleið í sjálfum vísindunum þó að það eigi samleið í samskiptunum. Það er vandi að greina þarna á milli þannig að menn horfi til enda án þess að ruglast í ríminu.

Það er mikilvægt fyrir okkur á Íslandi að skapa skjól fyrir okkar fólk, veraldlegt, fjármálalegt og trúarlegt skjól. Skjól sem byggist kannski fyrst og fremst á orði sem ekki er hægt að þýða á erlendar tungur — vinarþeli. Það ætti að vera skjól sem við ættum helst að hafa í heiðri og í því er innifalið æðimargt af því sem við viljum leggja áherslu á í þjóðfélagi okkar til að lifa þar saman í sátt og samlyndi.

Þegar skólaskylda hófst færðist sú skylda foreldra að kenna börnum siðgæði, kristilegt siðgæði, að sumu leyti frá heimilum og til skólayfirvalda, til skólanna í landinu. Kirkjan og prestastéttin í landinu hefur í gegnum aldirnar staðið vörð um þetta mikilvæga verkefni og þennan mikilvæga þátt. Kirkjan og prestastéttin hafði verulega forgöngu um að koma skólaskyldu á á Íslandi og kristinfræðikennsla fór þá að verulegu leyti yfir á þann þátt þjóðlífsins án þess þó að ábyrgð heimilanna væri á nokkurn hátt tekin burt.

Það er slæmt að mínu mati að slaka á taumnum í þessari straumiðu með því að finna út, þó að þetta sé fallegt orð „arfleifð“ íslenskrar menningar og megi túlka til hins sama, en það er ekki vísindaorð eins og hitt orðið er. Það er skilgreining. Og við eigum við að gera mun á slíku, hvort sem við erum með afleggjara eða móðurplöntuna sjálfa, hvort við höfum íslenska jurt eða viljum rækta stjúpmæður á Vatnajökli. Það væri ekki fallegt ásýndar.

Við eigum ekki að þurfa að hafa neina afsökun fyrir grunni okkar siðfræði og siðgæði þó að við kunnum þann þátt að vera fagleg gagnvart ritun sagna og þess vegna koma kannski orðin kristin arfleifð íslenskrar menningar. Þetta er útþynnt. Þetta er ekki okkar tæra og góða mjólk, þetta er léttmjólk. (Gripið fram í: Hún er holl.) Það getur verið ýmsu háð hvað er hollt. Það er jafnmikill sykur í hvorri tveggja. Þetta eru nefnilega atriði sem ég tel að eigi ekki að semja um. Þetta er ekki eitthvað sem er ekki ásættanlegt en við þurfum samt að hafa sterka vitneskju um það sem skiptir máli í þessu. Það er að ganga beint til verks í að skapa það skjól sem skiptir svo miklu máli. Þar er kirkjan, þar eru trúarbrögðin, þar er kristindómurinn forsendan.

Íslenskir kristniboðar hafa líklega um sex áratuga skeið stundað kristniboð til að mynda í Konsó í Eþíópíu. Afraksturinn er samfélag fátæks fólks í innhéruðum Eþíópíu, fólks sem líður nú miklu betur. Margir hafa sagt að menn eigi ekki að skipta sér af trúarbrögðum í öðrum heimshlutum, en þar sem fáfræði er þar eru ekki jákvæðir hlutir. Einu trúarbrögðin í Konsó áður en íslenskir kristniboðar komu þar til starfa var trúin á hið illa. Það var bara misjafnlega mikið illt sem gat hent fólk. Þetta eru einfaldar staðreyndir þó það standi okkur ekki nærri að hugsa um það. Þetta varð til þess að nú er þar fólk sem líður betur. Stærsti hlutinn af þessari kristindómsfræðslu var kannski heilbrigðisfræði, að kenna hreinlæti og kenna ræktun, að kenna einfalda hluti sem bættu kjör og bættu líf. Íslenskir kristniboðar hafa unnið stórkostlegt afrek á þessum vettvangi í Konsó eins og víðar í heiminum. Við eigum að læra af þessu. Við eigum að standa vörð um það sem hefur reynst okkur vel og gæta þess að þynna það ekki út.

Það er margt sem þarf að verja þótt sitt sýnist hverjum. Það finnst mörgum t.d. sjálfsagt að verja stefnu Framsóknarflokksins. (Gripið fram í: Það þarf ekki að verja hana.) Það er af hinu góða auðvitað því að hún er hluti af íslenskum jarðvegi þótt sitt sýnist hverjum. (Gripið fram í: Það er skynsemin sjálf.) Það er þetta sem mér finnst skipta máli í þessari umræðu að fari ekki á milli mála. Og ég vil undirstrika með þessum orðum mínum að við þurfum að styrkja kristinfræðsluna í skólum landsins þó að við getum sinnt fræðslu um önnur trúarbrögð, aðrar vísindagreinar, en okkar stefna, okkar trú er kristin trú. Það er skylda okkar að verja hana.

Í hinni helgu bók má víða finna tilvitnanir sem styrkja þessa framsögu. Þetta er ekki langur texti en vigtar þungt og er kjarni málsins. Þær þola hvaða pus sem er, hvaða glott sem er, hvaða högg sem er, því að enginn maður sem ver kristna trú haggast. Enginn. Það er hægt að róta mörgum öðrum og það eins og lífið sjálft er, ber vott um ákveðinn veikleika. Í Matteusarguðspjalli, 7. kafla, 12. versi Fjallræðunnar segir til að mynda í einni setningu, gullna reglan:

„Allt sem þér viljið, að aðrir menn gjöri yður, það skuluð þér og þeim gjöra. Þetta er lögmálið og spámennirnir.“

Það felst mikið í þessum fáu orðum. Þau eru ekki neitt smjörlíki á brauð, þau eru alvörufæða fyrir andlega heilsu, andlegt jafnvægi, fyrir lífsgæði og velsæld íslensku þjóðarinnar.

Það má vitna í Matteusarguðspjall, tvöfalda kærleiksboðorðið sem segir í hnotskurn frá mikilvægi þess að við stöndum vörð um kristnifræðslu í okkar samfélagi. Þó að enginn sé kristnari en honum sýnist viljum við hafa ákveðna hluti í lagi og það er ekki hægt að hringla neitt með trúarbrögð. Það verður að vera eitthvað sem þróast í mannsálinni sjálfri og sumir meira að segja sem halda að þeir séu heiðingjar eru kannski trúuðustu menn landsins. (Gripið fram í: Eins og Bjarni Harðarson.) Já, gott dæmi er hv. þm. Bjarni Harðarson. Í Matteusarguðspjalli, 22. kafla, segir með leyfi forseta, þó að vitnað sé í Biblíuna:

„Og einn þeirra, sem var lögvitringur, vildi reyna hann og spurði: „Meistari, hvert er hið æðsta boðorð í lögmálinu?“

Jesús svaraði honum: „Elska skalt þú Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni og öllum huga þínum. Þetta er hið æðsta og fremsta boðorð. Annað er hliðstætt þessu: „Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig. Á þessum tveimur boðorðum hvílir allt lögmálið og spámennirnir.““

Þetta er kjarni okkar kennslu í siðgæði og siðfræðum í gegnum aldirnar á Íslandi. Af hverju ættum við að fara að hræra þetta upp í eitthvert duft, gerviduft, innflutt duft út af kröfum frá Brussel eða öðrum úti í Evrópu eða úti hinum stóra heimi? Við skulum bara halda okkar striki.

Og kannski er alvarlegasta og ákveðnasta tilvitnunin í þessum efnum, um mikilvægi þess að rækta þennan þátt sem ég hef lagt áherslu á í máli mínu, í Lúkasarguðspjalli, 6. kafla. Þar segir:

„En ég segi yður er á mig hlýðið: …“

(Forseti (EMS): Forseti vill minna hv. þingmann á að lesa ekki texta nema með leyfi forseta.)

Með leyfi forseta:

„Elskið óvini yðar,“ — með leyfi forseta — „gerið þeim gott sem hata yður,“ — með leyfi forseta — „blessið þá sem bölva yður“ — með leyfi forseta — „og biðjið fyrir þeim er misþyrma yður.“ — Með leyfi forseta: „Slái þig einhver á kinnina skaltu og bjóða hina og taki einhver yfirhöfn þína skaltu ekki varna honum að taka kyrtilinn líka. Gef þú hverjum sem biður þig og ef einhver tekur frá þér það sem þú átt þá skaltu ekki krefja hann um það aftur. Og eins og þér viljið að aðrir menn geri við yður, svo skuluð þér og þeim gera.“

Herra forseti. Þetta eru grundvallaratriði sem ég dreg fram hér. Í siðaboðskap kristninnar segir, með leyfi forseta, úr bók sem ber nafnið Maðurinn og trúin — Trúarbragðafræði handa grunnskólum , eftir Gunnar J Gunnarsson, að kjarninn í siðaboðskap kristninnar sé einmitt tvöfalda kærleiksboðorðið. Og þegar Jesús var spurður hvert væri æðst allra boðorða vitnaði hann einmitt í það boðorð sem ég las upp áðan.

Þegar Jesús talar um að elska á hann ekki bara við tilfinningar heldur kærleika sem kemur fram í verki. Hann er sjálfur kristnum mönnum fyrirmynd því að hann sýndi þeim sem urðu á vegi hans kærleika í verki með því að lækna sjúka og hughreysta þjáða. Hann lagði einnig áherslu á að allir sem þyrftu á kærleik okkar að halda, umhyggju og hjálp, væru náungar okkar. Gullna reglan í Fjallræðunni undirstrikar þetta.

Það er því mikilvægt að við ræktum þann þátt í skólastarfinu sem heitir kristinfræðsla og nýtum þekkingu prestastéttarinnar því að þeir eru lögboðinn hluti landsins þegna og við eigum að þora að standa við það að verja þessa fræðslu, hv. þm. Arnbjörg Sveinsdóttir. (Gripið fram í: Þakka þér fyrir það.) Það skiptir öllu máli að sinna því verki af einurð, að fara ekki með flím um það heldur hafa þrek til að standa á því sem skiptir máli til lengri tíma og skemmri fyrir íslenska þjóð.