135. löggjafarþing — 106. fundur,  22. maí 2008.

grunnskólar.

285. mál
[23:50]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Mér finnst forseti ekki vera sjálfri sér samkvæm og sýna þinginu og þingstörfunum afskaplega mikla lítilsvirðingu með því í fyrsta lagi að svara engu því sem að henni er beint. Það er algjörlega óviðunandi að hún svari ekki þingmönnum um hvaða áform hún hefur uppi.

Í öðru lagi vil ég minna á það að í upphafi þingfundar í morgun bar forseti upp tillögu um það að þingfundurinn gæti staðið lengur í dag, eins og það var orðað. Það getur auðvitað ekki þýtt fram á næsta dag sem hefst eftir tíu mínútur eða svo. Þannig að forseti er kominn í fullkomna mótsögn við sjálfan sig og á auðvitað að sjá sóma sinn í því að standa við það sem talað var um. Hægt er að fullyrða að ef þingheimi hefði verið ljóst að til stæði að fara á svig við hugmyndafræðina á bak við nýju þingsköpin og halda hér næturfundi hefði tillaga forseta (Forseti hringir.) ekki verið afgreidd með þeim hætti sem hún var afgreidd í morgun.