135. löggjafarþing — 106. fundur,  22. maí 2008.

grunnskólar.

285. mál
[23:58]
Hlusta

Frsm. menntmn. (Sigurður Kári Kristjánsson) (S) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég vil í upphafi segja að ég er sammála hv. þm. Jóni Magnússyni um það að hér ríkir ákveðin vertíð. Þegar menn eru á vertíð þá hef ég nú tilhneigingu til þess að líta þannig á málin að menn eigi að klára vertíðina.

Úr því að hæstv. iðnaðarráðherra er hér í salnum þá veit ég að hann er sammála mér um það að kvöld- og næturfundir hafa ekki beinlínis verið að þvælast fyrir þingmönnum sem sitja á þessu þingi á þessu kjörtímabili. Ég held því að við séum ekkert of góð til þess að sitja hér og ræða menntamál eins og við höfum gert í allan dag. Þetta eru stór og mikilvæg mál og það er mikilvægt að nýta tímann vel og taka umræðuna.

Ég veit að hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar vilja fresta framhaldsskólafrumvarpinu. En það er að mínu mati ekki í boði. Það eru bara tveir kostir í stöðunni; að klára málin og öll málin eða ekkert. (Forseti hringir.) (Gripið fram í.) Það er mín skoðun (Forseti hringir.) enda hanga þessi mál öll saman og það veit hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon. Ég legg til, frú forseti, að haldið verði áfram með þennan fund.