135. löggjafarþing — 106. fundur,  23. maí 2008.

grunnskólar.

285. mál
[00:14]
Hlusta

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég undrast stórlega tvennt. Annars vegar hlýt ég að spyrja: Hvar er dagskrá morgundagsins, þess dags sem nú er upp runninn? Ég vil vekja athygli forseta á því að nefndarfundir hafa verið boðaðir í fyrramálið klukkan hálfníu. (Gripið fram í: Ekki núna, það eru engir þingfundir á laugardögum.) Það eru ekki þingfundir og það er ekki laugardagur — já, hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson leiðréttir mig, sem ég reyndar var búin að gera sjálf, þetta er sá dagur sem upp er runninn, sagði ég, og búið er að boða nefndarfundi í fyrramálið, en það er svo sérkennilegt að hvergi er dagskrá morgundagsins. Hvernig eiga þingmenn að skipuleggja störf sín með þessu móti?

Boðað hefur verið að raforkulagafrumvarp hæstv. iðnaðarráðherra (Forseti hringir.) verði til umræðu á morgun. Ég mótmæli því að það skuli ekki boðað með einhverjum fyrirvara á dagskrá. Þessi dagur er runninn upp, það hlýtur að vera búið að leggja fram dagskrá (Forseti hringir.) fyrir þennan fundardag.