135. löggjafarþing — 106. fundur,  23. maí 2008.

grunnskólar.

285. mál
[00:39]
Hlusta

Bjarni Harðarson (F) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Varðandi fundarstjórn á þessum degi vil ég, með leyfi forseta, lesa upp ræðu þá sem forseti þingsins, hv. þm. Ásta R. Jóhannesdóttir, flutti hér klukkan 10.31 í gær. Þá var fimmtudagur, nú er föstudagur.

Ræða Ástu R. Jóhannesdóttur hljóðar svo, með leyfi forseta, eftir því sem ritað er af starfsmönnum þingsins sem hafa staðið sig ötullega í vinnu þennan dag sem aðra:

„Þrátt fyrir ákvæði 4. mgr. 10. gr. þingskapa um lengd þingfunda er það tillaga forseta að þingfundur geti staðið lengur í dag, þ.e. þar til umræðum um dagskrármálin er lokið.“

Þessi ræða er mjög skýr hjá hæstv. forseta (Forseti hringir.) og vísar til gærdagsins, ekki föstudagsins. (Forseti hringir.) Því mótmæli ég því háttalagi sem haft er á við fundarstjórn.