135. löggjafarþing — 106. fundur,  23. maí 2008.

grunnskólar.

285. mál
[01:58]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Ég átti ekki eftir að fara yfir margt. Mig langar þó að segja, af því að ég hef talað talsvert um skipulag og framkvæmd sérfræðiþjónustunnar og 40. gr. í frumvarpinu — þar segir í 1. mgr. að sveitarfélög skuli tryggja að sérfræðiþjónusta sé veitt í grunnskólum, ákveða fyrirkomulag hennar og stuðla að því að hún fari fram innan grunnskóla. Ég gerði athugasemd við þetta orðalag „að stuðla að því að hún fari fram innan grunnskóla“ í starfi nefndarinnar. Við urðum sammála um ákveðnar breytingar varðandi þann stuðning sem fötluð börn eiga að fá innan grunnskólans. Þær voru allar mjög til bóta og ég var mjög sátt við þær en varðandi þetta orðalag þá var það sameiginlegur skilningur nefndarinnar, og ég vil að það komi hér fram, að kannski væri ekki þörf á því að breyta þessu orðalagi þar sem nefndin væri sammála um, og aðrar breytingartillögur nefndarinnar sýndu það, að nauðsynlegt væri að sveitarfélög legðu kapp á að þessi kennsla færi fram innan grunnskólans. Þetta orðalag „að stuðla að því að“ þýðir í hugum nefndarmanna að leggja skuli kapp á og gera allt sem mögulegt er til þess að þjónustan fari fram innan skólans. Ég vildi bara að þetta kæmi fram hér.

Ég hef ákveðinn fyrirvara við allar þær reglugerðarheimildir sem eru í frumvarpinu og ekki bara í þessu frumvarpi heldur öðrum frumvörpum sem því eru tengd. Í þessu frumvarpi til laga um grunnskóla eru 13 reglugerðarheimildir. Þegar allar reglugerðarheimildirnar eru taldir í þessum fjórum frumvörpum eru þær yfir 40, þær eru á fimmta tug. Í mínum huga er hér um ákveðið valdaframsal að ræða frá löggjafanum til menntamálaráðherra. Menntamálaráðherra hefur sagt, og það er stefna hennar með þessum frumvörpum, að sjálfstæði skólanna verði aukið. Undir það tek ég. En um leið er ákveðin miðstýringarárátta enn til staðar í frumvörpunum og ég nefni aðalnámskrá sem hefur verið gagnrýnd af ýmsum umsagnaraðilum.

Ég óttast að með öllum þessum reglugerðarheimildum til ráðherra sé löggjafinn að auka miðstýringuna, að við séum að afsala okkur valdi til ráðherrans. Þann ótta vildi ég nefna í ræðu þannig að ég hefði haft orð á honum. Ég tel almennt séð að lögin eigi að vera það skýr frá hendi löggjafans að ekki eigi að þurfa mjög mikið af reglugerðarheimildum. Hér hefur sú leið ekki verið farin. Varðandi grunnskólann á t.d. að setja reglugerð um starfsemi skólaráða, um ábyrgð nemenda, um nemendur með sérþarfir, um meðferð upplýsinga, um húsnæði og bústaði í grunnskólum, um skólaakstur, um meðferð upplýsinga á milli skólastiga, um sprotasjóðinn, um innra og ytra mat á grunnskólunum, um upplýsingaskyldu sveitarfélaga til ráðuneytis, um fyrirkomulag og framkvæmd samræmds námsmats, prófa og rannsókna í grunnskólum, um undanþágur nemenda frá samræmdu námsmati, um sérfræðiþjónustu í grunnskólum og nemendaverndarráð, um heimakennslu og um viðurkenningu einkaskóla. Þetta eru reyndar fleiri en 13 heimildir, þetta eru heimildir í 13 greinum. Ég tel að um of margar reglugerðarheimildir sé að ræða og betur hefði farið á því að meira af þessum þáttum hefði verið skrifað út úr lagafrumvarpinu.

Mig langar líka að nefna að við fengum afar yfirgripsmikla umsögn frá Kennarasambandi Íslands um frumvarpið. Margar af þeim athugasemdum sem þar koma fram hafa verið lagðar til í breytingartillögum, bæði þeim sem meiri hlutinn stendur sameiginlega að og eins þeim sem ég flyt sérstaklega á þskj. 1070. Eitt atriði langar mig að nefna sem Kennarasambandið gerir athugasemdir við. Það telur að frumvarpið eigi að ganga lengra í að vernda nemendur fyrir of miklu vinnuálagi. Það leggur til að ákvæðum um lengd vinnulotna og ákvæðum um lengd jóla- og páskaleyfa í núgildandi lögum verði bætt inn í frumvarpið.

Mig langaði til að nefna þetta til umhugsunar. Það skiptir máli að nemendur og við öll áttum okkur á því hversu langur vinnudagur nemenda er í grunnskólakerfinu. Kannski þurfum við að huga að því að einhvers staðar þurfi að setja einhverjar skorður við því og tryggja að lögin skapi það umhverfi fyrir nemendur að þeir fái að vera með fjölskyldum sínum. Því hvað er skólinn án fjölskyldnanna og börnin án stuðningsins heima?