135. löggjafarþing — 106. fundur,  23. maí 2008.

menntun og ráðning kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla.

288. mál
[02:24]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Við ræðum nú þriðja málið í skólafrumvarpayfirferðinni, frumvarp um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla. Ég flyt á þingskjali 1069 nokkrar breytingartillögur sem ég ætla að gera grein fyrir.

Mig langar að byrja á að segja, af því að ég hef hælt vinnunni í nefndinni hérna í dag oftar en einu sinni reyndar, að við höfum svona runnið út á tíma með ákveðna þætti í þessu máli. Ég hefði gjarnan viljað komast lengra með ákveðna þætti þess. Þar er ég fyrst og fremst að tala um náms- og starfsráðgjafana. Ég legg þess vegna fram breytingartillögur sem ég að hluta til gerði grein fyrir í máli mínu um grunnskóla áðan, þ.e. að náms- og starfsráðgjafar verði fullgildir og skilgreindir sem hluti af starfsliði skóla. Frumvarpið verði þá í raun látið heita, eins og ég geri grein fyrir í 12. tölulið í breytingartillöguskjalinu, frumvarp til laga um menntun og ráðningu kennara, skólastjórnenda og náms- og starfsráðgjafa við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla. Frumvarpið allt fjalli því jöfnum höndum um allar þær starfsgreinar sem ég nefndi og yfirskriftin verði á þennan hátt.

Mér og okkur í nefndinni hefur borist ályktun frá Félagi leikskólakennara og sömuleiðis ályktun frá skólamálaþingi Kennarasambands Íslands sem nýlega er afstaðið þar sem þessu máli er fagnað sérstaklega. Kennarasamband Íslands leggur mikla áherslu á að vandað verði til vinnu við skipulagningu nýrrar kennaramenntunar og leitað víðtækrar samvinnu um málið. Það verði unnið að innleiðingu gæðakerfis til að meta kennaranám og sett fram öflugt skipulag um starfsþjálfun kennaranema með sérstaka áherslu á aukna þjálfun í kennslu. Gera þurfi ráð fyrir skipulegri leiðsögn nýrra kennara í starfi sem taki yfir lengra tímabil en nú er. Um þessi efni leggur Kennarasambandið til að m.a. verði leitað góðra fordæma frá öðrum þjóðum.

Ég tek undir þessi sjónarmið Kennarasambandsins og tel nauðsynlegt að leggja töluvert á sig við að innleiða það frumvarp sem er til umræðu og þau ákvæði sem í því eru. Leikskólakennarar ályktuðu sömuleiðis á aðalfundi sínum að veruleg þörf væri á því að kynna efni þessa frumvarps vel fyrir leikskólakennurum og meðal þeirra sem ætla að starfa leikskólanum því að um verulegar breytingar er að ræða. Eins og kom fram í máli hv. þm. Sigurðar Kára Kristjánssonar voru vissulega skiptar skoðanir um meginatriði þessa máls eins og umsagnir frá ýmsum aðilum gefa til kynna og þær eru yfirgripsmiklar.

Hæstv. forseti. Menntunarkröfur eru gerðar í 3., 4. og 5. gr. frumvarpsins en ég lýsi því yfir að athugasemdir mínar við þær greinar og umfjöllun nefndarinnar um þær hefur ekki ratað inn í nefndarálitið á þingskjali 1013. Ég tel að það sé miður og rekja megi ástæður þess að einhverju leyti til athugunarleysis kannski af þeirri sem hér stendur. En ég óskaði eftir sérstakri umfjöllun um þessi atriði í nefndaráliti en sökum þess hve lokafundur nefndarinnar var pressaður í tíma og þess að ég saknaði ekki umfjöllunarinnar úr nefndarálitinu þegar búið var að dreifa því í þingsölum þá fór sem fór hvað þetta atriði varðar.

Mig langar í ræðu minni að reyna að skýra þau sjónarmið sem ég tel nauðsynlegt að komi fram. Kennarasamband Íslands benti á að menntunarkröfur til þeirra kennara sem hefðu iðnmeistararéttindi, sem fjallað er um sérstaklega í 3., 4. og 5. gr. frumvarpsins, væru ekkert aukin með frumvarpinu frá því sem nú gilti. Það vantaði að tilgreina viðbót við núverandi skilyrði sem tækju af tvímæli um fimm ára menntun og lokapróf fyrir þennan hóp kennara svo jafnræðis væri gætt miðað við aðra hópa.

Þessu sjónarmiði, virðulegi forseti, var svarað af stjórnarliðum í nefndinni með því að slá því föstu að auknar kröfur til þessara tilteknu kennara mundu koma í veg fyrir að kennarar með iðnmenntunarréttindi skiluðu sér í kennarastöður í nægjanlegum mæli og slíkt mundi valda erfiðleikum við að manna kennarastöður í iðn- og verkgreinum. Það er þá mat meiri hluta nefndarinnar að auknar menntunarkröfur geti verið hamlandi, þ.e. geti verið þröskuldur í þeirri viðleitni að fá kennara inn í skólana. Þetta er alvarlegt ef svo verður í raun að auknar menntunarkröfur til iðnmeistara komi til með að virka hamlandi við að fá iðnmeistara með kennsluréttindi inn í skólana sem kennara. Þetta segi ég vegna þess að við höfum verið sammála um það í nefndinni að leggja þurfi sérstaka rækt við verknámið og iðnnámið og efla veg þess sem mest má.

Í þessu sambandi, virðulegi forseti, verður að gefa gaum að 8. gr. Hún fjallar um reglugerðarheimild menntamálaráðherra þar sem ætlunin er að skýra inntak menntunar, leik-, grunn- og framhaldsskólakennara með tilliti til lágmarkskrafna um vægi kennslu og uppeldisfræða og vægi faggreina.

Í greinargerð með frumvarpinu segir um 8. gr., með leyfi forseta:

Í ákvæðinu er menntamálaráðherra gert að skilgreina nánar í reglugerð inntak menntunar leik-, grunn- og framhaldsskólakennara. Gert er ráð fyrir því að í slíkri reglugerð komi fram þau meginviðmið og vinnureglur sem byggt verði á við mat á kennaramenntun. Í skýrslu starfshóps um framtíðarskipan kennaramenntunar var lögð áhersla á að boðnar yrðu fjölbreytilegar námsleiðir til kennsluréttinda og í auknum mæli horft fram hjá skilum milli skólastiga við veitingu kennsluréttinda. Í reglugerð þarf því að skilgreina ólíka samsetningu náms í sérgreinum og kennslufræðum til kennsluréttinda á mismunandi skólastigum. Má þar taka mið af aðalnámskrám skólastiganna. Vegna eðlis starfsins verður að krefjast 60 staðlaðra námseininga í kennslufræðum hið minnsta eða sem nemur heilsársnámi.

Mér þykir mikilvægt að taka það fram, hæstv. forseti, að gert er ráð fyrir því að í reglugerðinni verði farið að þeim tillögum eða tekið mið af þeim tillögum sem fram komu í skýrslu starfshópsins sem nefndur er um framtíðarskipun kennaramenntunar og um þetta atriði var ekki ágreiningur í nefndinni.

Ég geri á breytingartillöguskjali mínu eins og ég sagði áðan fyrst og fremst breytingar varðandi náms- og starfsráðgjafana, þ.e. að koma þeim inn í menntunarfrumvarpið. Ég fer ekki sérstaklega í þær greinar. En mig langar til að nefna í örfáum orðum þær greinar sem ekki varða náms- og starfsráðgjafana í breytingartillöguskjalinu mínu. En þar er ég að tala um 22. gr. sem fjallar um undanþágunefnd framhaldsskólanna. Mín tillaga gengur út á það að fjölgað verði í nefndinni, að hún verði skipuð fjórum fulltrúum, einum fulltrúa tilnefndum af heildarsamtökum kennara, einum fulltrúa tilnefndum af Félagi íslenskra framhaldsskóla, einum tilnefndum af samstarfsnefnd háskólastigsins, sem er nýmæli, það er ekki í frumvarpinu. Breytingartillaga mín gengur sem sagt út á það að þeim fulltrúa verði bætt inn og síðan einum fulltrúa án tilnefningar eins og gert er ráð fyrir í frumvarpstextanum.

Sömuleiðis geri ég breytingartillögu við 23. gr. sem fjallar um mat á umsóknum og forgang til starfs. 1. mgr. hljóðar svo í frumvarpinu, með leyfi forseta:

„Við ráðningu skólastjórnenda í leik-, grunn- og framhaldsskólum skal tekið tillit til menntunar, starfsferils, stjórnunarreynslu eða viðbótarmenntunar í stjórnun og umsagna um starfshæfni umsækjanda.“

Ég legg til að „eða“ verði tekið í burtu og í stað þess verði sett greinarmerkið komma þannig að setningin verði með þessu móti: Við ráðningu skólastjórnenda í leik-, grunn- og framhaldsskólum skal tekið tillit til menntunar, starfsferils, stjórnunarreynslu, viðbótarmenntunar í stjórnun og umsagna um starfshæfni umsækjanda.

Ég legg því til að örlítið auknar kröfur verði gerðar frá því sem frumvarpið gerir ráð fyrir.

Í 24. gr. geri ég tillögu um að í stað orðanna „til kennslu elstu aldursflokkanna í leikskólum“ komi „til kennslu í tveimur elstu aldursflokkum leikskóla.“ Hér er verið að fjalla um gildissvið leyfisbréfa og 1. töluliður í greininni gerir ráð fyrir því að leyfisbréf grunnskólakennara sem sérhæft hefur sig í kennslu yngri barna veiti honum heimild til kennslu elstu aldursflokka í leikskólum. Ég geri ráð fyrir því í breytingartillögu minni að þetta gildi einungis um elstu tvo árgangana.

En að öðru leyti eins og ég sagði áðan, hæstv. forseti, varða breytingartillögur mínar nánast eingöngu náms- og starfsráðgjafana. Að lokum vil ég segja um þetta mál, sem ég tel vera afar metnaðarfullt og stórt skref stigið og ánægjulegt að um þetta skuli hafa náðst samstaða á Alþingi, að við verðum að hafa það í huga í ljósi raunveruleikans og í ljósi þess hvernig okkur hefur gengið að manna stöður leikskólakennara hingað til að við erum að setja löggjöf sem má kannski segja að komi til með að móta kennaramenntunina eins og hún verður eftir 20 ár, eða 30 ár þess vegna. Þessir hlutir gerast mjög hægt og það skiptir verulegu máli að skref af þessu tagi séu stigin í góðri sátt og samvinnu aðila og við áttum okkur á því að árangurinn næst ekki á einni nóttu eða á einum degi. Þetta er langhlaup sem við erum í. Þetta er hluti af því að tryggja bætt skólastarf, tryggja það að grundvöllur samfélags okkar, menntun barnanna okkar verði með þeim hætti sem best verður á kosið og þá líka um leið að virðingin fyrir starfi kennaranna hvort sem það er í leikskólum, grunnskólum eða framhaldsskólum verði sú sem eðlileg geti talist. Við erum að fela framtíð barnanna okkar í hendur kennurum og þeir eru að ala upp börnin okkar með okkur. Í því samfélagi sem við búum í þurfum við að tryggja og hlúa vel að þeirri stétt. Ég tel að við séum að gera það með þessu frumvarpi.