135. löggjafarþing — 106. fundur,  23. maí 2008.

menntun og ráðning kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla.

288. mál
[02:36]
Hlusta

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Ég tek undir orð hv. þm. Kolbrúnar Halldórsdóttur um að vandað hafi verið til verka við þetta frumvarp eins og við leikskóla- og grunnskólafrumvarpið. Ef til vill hefði mátt eyða örlítið meiri tíma í að vinna þetta mikilvæga frumvarp og ég get tekið undir þær breytingartillögur sem hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir lagði fram um að náms- og starfsráðgjöf verði skilgreind sem hluti af starfi skóla en hefði viljað að það hefði verið unnið meira og betur í nefndinni.

Í frumvarpinu er að finna nýmæli um lögverndun á starfsheiti leikskólakennara og aukin menntunarskilyrði til að öðlast starfsheiti og starfsréttindi grunn- og framhaldsskólakennara. Jafnframt er lagt til í frumvarpinu að gildissvið leyfisbréfa, leik-, grunn- og framhaldsskólakennara verði víkkað á þann hátt að það nái til aðliggjandi skólastiga. Kveðið er á um að tveir þriðju hlutar stöðugilda í leikskóla skuli mönnuð leikskólakennurum og það er kannski það sem ég ætla helst að beina málflutningi mínum að á eftir.

Þá er lögð áhersla á forgang þeirra til starfa sem lokið hafa bakkalárprófi umfram aðra sem ekki hafa lögverndað starfsheiti samkvæmt frumvarpinu. Enn fremur er kveðið á um forgang kennara í starfi í þeirri námsgrein sem hann hefur sérhæft sig í auk annarra atriða sem ég ætla ekki að fjalla sérstaklega um.

Mikil umræða fór fram innan nefndarinnar um leikskólakennaramenntun og stöðu leikskólakennara og annars starfsfólks í leikskólum landsins. Það urðu nokkuð háværar umræður í þjóðfélaginu um auknar menntunarkröfur til að hljóta starfsheitið leikskólakennari og tengist sú umræða 9. gr. frumvarpsins þar sem kveðið er á um að að lágmarki tveir þriðju hlutar stöðugilda við kennslu, umönnun og uppeldi barna í hverjum leikskóla skuli teljast til stöðugilda leikskólakennara, sem og 20. gr. frumvarpsins þar sem gert er ráð fyrir undanþágu frá þessu ákvæði 9. gr. og veitt heimild til að ráða til bráðabirgða, að hámarki í eitt ár, einstakling sem ekki hefur menntun leikskólakennara fáist ekki leikskólakennari í stöðugildi þrátt fyrir ítrekaðar auglýsingar.

Því miður er það svo að það er mönnunarvandi á ýmsum leikskólum, sérstaklega á suðvesturhorni landsins. Við Akureyringar höfum sem betur fer ekki þurft að búa við þann vanda en á Akureyri er staðan í þeim málum til mikillar fyrirmyndar. Ég tel að það sé afar mikilvægt að hæfir og vel menntaðir einstaklingar sinni þeim mikilvægu störfum sem þar eru unnin vegna þess að tekin hefur verið ákvörðun um að leikskólinn sé fyrsta skólastigið þó að ekki sé kveðið á um skólaskyldu á því stigi. Aukin atvinnuþátttaka beggja foreldra gerir það að verkum að börn verða að eyða stórum hluta dagsins á leikskóla og þá er eins gott að við á Alþingi tryggjum að þar sé hæft starfsfólk til þeirra mikilvægu starfa.

Fram komu töluverðar athugasemdir í umsögnum sveitarfélaga um þessar auknu menntunarkröfur. Þau telja að hér sé um stórt skref að ræða einkum með hliðsjón af því að ekki er langt síðan leikskólakennaranámið var flutt á háskólastig. Þar af leiðandi sé enn stór hópur leikskólakennara sem ekki hefur lokið grunnháskólanámi. Ekki séu heldur gerðar kröfur um meistarapróf í þessari starfsstétt í þeim nágrannalöndum sem við berum okkur saman við. Sveitarfélögin lýstu jafnframt yfir áhyggjum af neikvæðum áhrifum sem lenging námsins gæti haft á mönnun í leikskólum þar sem nú þegar ríkir mannekla. Sambærileg sjónarmið komu jafnframt fram í umsögn frá verkalýðshreyfingunni sem ég ætla ekki að rekja sérstaklega.

Það er kannski erfitt að fjalla um þau ákvæði sem ég minntist á áðan ein og sér en í umfjöllun nefndarinnar voru þessar greinar frumvarpsins skoðaðar í samhengi og með tilliti til þeirrar stöðu sem nú ríkir í leikskólamálum hér á landi.

Varðandi 9. gr. frumvarpsins og þá breytingu að ekki sé lengur gert ráð fyrir að allir starfsmenn sem koma að uppeldi og menntun innan leikskóla séu leikskólakennaramenntaðir heldur tveir þriðju starfsmanna áréttar nefndin, og ég tek undir það, að ekki sé hægt að skipta starfsfólki leikskóla í tvo hópa með þessum hætti. Taka verði tillit til þess að fólk með mismunandi menntun og þekkingu nýtist vel í starfi innan leikskólans og má þar m.a. nefna þá sem lagt hafa stund á ýmiss konar listnám, íþróttafræðinga, sjúkraþjálfara, félagsfræðinga og aðra sem lokið hafa uppeldisnámi. Með ofangreindri breytingu er annars vegar viðurkennt mikilvægi einstaklinga með annars konar menntun en leikskólakennaramenntum í störfum innan leikskóla og hins vegar er lagt til að sett verð í lög raunhæfari viðmið um hlutfall menntaðra leikskólakennara en verið hefur í lögum fram til þessa og það viðmið verði tveir þriðju hlutar en núna er hlutfallið einn þriðji. Ég verð að koma aðeins inn á þetta vegna þess að tvær ungar dætur mínar eru á leikskóla og þær hafa verið svo heppnar að á þeim leikskóla hefur ekki verið mikil hreyfing á starfsfólki og maður finnur hvað það skiptir gríðarlega miklu máli og hve mikið öryggi myndast við það að sama fólkið sé þar ár eftir ár jafnvel þó að ekki séu allir leikskólakennaramenntaðir og líka það að þessir einstaklingar fylgi börnunum á milli deilda innan leikskólans.

Í 20. gr. frumvarpsins er kveðið á um heimild til að lausráða í auglýsta leikskólakennarastöðu til eins árs í senn einstakling sem ekki er leikskólakennari. Þetta hefur í för með sér að starfsöryggi viðkomandi starfsmanns er rýrt mjög, enda er gerð krafa í 11. gr. frumvarpsins að auglýsa öll störf leikskólans. Til að auka starfsöryggi þessa fólks, sem oft hefur mikla þekkingu og reynslu af störfum í leikskóla, leggur nefndin til breytingar á frumvarpinu í þá átt að hafi tiltekið starf leikskólakennara verið auglýst í tvígang án þess að menntaður leikskólakennari hafi fengist verði heimilt að ráða viðkomandi starfsmann í starfið. Enn fremur telur nefndin rétt að tryggja að þeir starfsmenn sem ekki hafa kennaramenntun og ráðnir hafa verið á grundvelli gildandi laga haldi starfi sínu. Ég tel að þessar breytingar séu mjög til bóta og ég styð þær.

Að lokum vil ég aðeins minnast á að það fór fram töluverð umræða innan nefndarinnar um hæfnisskilyrði stjórnenda leik-, grunn- og framhaldsskóla en þar gætir nokkurs misræmis annars vegar milli 10. og 13. gr. frumvarpsins og hins vegar 17. gr. þess, en eins og ákvæði þessara greina frumvarpsins bera með sér eru nú gerðar meiri kröfur til skólastjórnenda leikskóla og grunnskóla en stjórnenda framhaldsskóla. Gerð er krafa um viðbótarmenntun í stjórnun eða kennslureynslu til þeirra sem sækja um starf leikskólastjóra eða skólastjóra grunnskóla auk starfsheitisins leikskólakennari eða grunnskólakennari eftir því sem við á. Í 17. gr. er aftur á móti einungis gerð krafa um að viðkomandi hafi starfsheitið framhaldsskólakennari. Nefndin telur að samræma þurfi þær kröfur sem gera eigi til stjórnenda mismunandi skólastiga og leggur til breytingar á frumvarpinu þar um.

Ég ætla ekki að hafa umfjöllun mína öllu lengri, það er líka komið talsvert fram á nótt, en ég vona að þær breytingar sem gerðar eru í þessu frumvarpi verði til bóta. Ég legg til að menntamálaráðuneytið fylgi því mjög eftir að okkur lánist í framtíðinni að minnka hlutfall ófaglærðra starfsmanna á leikskólum og að markmiðið að tveir þriðju hlutar þeirra sem starfa á leikskólum séu leikskólakennarar sé raunhæft og því verði náð.