135. löggjafarþing — 107. fundur,  23. maí 2008.

afbrigði um lengd þingfundar.

[10:45]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Forseti. Hvernig var tillagan sem samþykkt var áðan? Hvað var verið að samþykkja? Lengdan fundartíma eða að tæma dagskrána eða hvort tveggja? Gæti forseti gert þingheimi ljóst nú hvaða umboð hann telur sig hafa í kjölfar atkvæðagreiðslunnar hér áðan? Er forseti enn að reyna að halda því fram þvert á skýr ákvæði þingskapa að hann hafi fengið umboð fundarins til þess að tæma dagskrána hvað sem tautar og raular þótt hér þurfi að funda fram á sunnudag til þess ef svo bæri undir?

Ég held að forseti gerði rétt í því að hugsa sinn gang og draga nú strax í land og reyna ekki að halda fram fjarstæðu af því tagi að það sé einhver stoð í þingsköpum fyrir því að láta fund samþykkja það fyrir fram að hann skuli tæma dagskrá hvað sem tautar og raular, hversu langan fund sem þurfi til þess. Það sjá auðvitað allir heilvita menn að slíkt gengur ekki upp. Mitt mat er að það eina sem forseti fékk hér umboð til var að hafa fundinn lengur en til átta í kvöld, ef menn túlka það svo, en hitt er markleysa.