135. löggjafarþing — 107. fundur,  23. maí 2008.

afbrigði um lengd þingfundar.

[10:46]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Ég tel nauðsynlegt að varpa ljósi á það sem hér hefur gerst, bæði hér í nótt og núna. Þjösnagangur Samfylkingarinnar hefur verið afhjúpaður og sömuleiðis Sjálfstæðisflokksins sem við reyndar þekktum áður.

En nú er það ljóst að samkvæmt 10. gr. þingskapalaga er forseta heimilt tvennt við þessar kringumstæður: Að leita eftir samkomulagi þingsins um lengd fundartíma. Það hefur ekki verið gert. Samkomulag er ekki leið Samfylkingarinnar eða Sjálfstæðisflokksins. (Gripið fram í: Samræðustjórnmálin.) Samræðustjórnmálin eru farin fyrir bí eina ferðina enn. Hin leiðin er að beita því afli sem stjórnarmeirihlutinn hefur á Alþingi Íslendinga og það er gert hér, með þjösnaskap, og það er gott að afhjúpa þetta. Hið rétta andlit ríkisstjórnarinnar lýsir sér í þessu. Það er komið í ljós.