135. löggjafarþing — 107. fundur,  23. maí 2008.

afbrigði um lengd þingfundar.

[10:47]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Ég verð að lýsa því að ég varð fyrir mjög miklum vonbrigðum með fundarstjórnina miðað við hvernig hún er að þróast. Við samþykktum hér þingsköp fyrir stuttu síðan til þess að gera þennan vinnustað fjölskylduvænni. Það er líka búið að ákveða að hafa haustþing þannig að málin lifa fram á haustið. Þau detta ekki niður dauð. Þau geta lifað fram á haustið og við getum klárað ýmislegt í september. Svo er setning þings.

Í nótt vildu Samfylkingin og Sjálfstæðisflokkurinn fara í framhaldsskólafrumvarpið í illindum, í fullkomnum illindum við stjórnarandstöðuna. Hér átti bara að klára það mál í fullkomnum illindum í nótt. Þetta er ekki boðlegt, virðulegur forseti, og svo á aftur að reyna að teygja fundinn núna og fá eitthvert umboð til þess að klára hann sama hvað tautar og raular, eins og hér hefur komið fram.

Framsóknarmenn hafa beðið um tvöfalda umræðu út af því að við erum með mál sem eru mjög umdeild og við eigum sem sagt að fara fram yfir miðnætti aftur. Ég hlýt að mótmæla því, virðulegur forseti. Þetta er ekki þinginu til sóma og þetta eru ekki nútímavinnubrögð. Þetta eru léleg vinnubrögð. (Forseti hringir.)