135. löggjafarþing — 107. fundur,  23. maí 2008.

afbrigði um lengd þingfundar.

[10:59]
Hlusta

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Ég fagna því að forseti hyggst beita sér fyrir samkomulagi um lengd þingfundar enda er þetta langheppilegasta leiðin til þess að ákveða þessa hluti. Það er mikill misskilningur á ferðinni varðandi túlkun á 4. mgr. 10. gr. Það atriði sem hér hefur verið nefnt varðandi þriðjudagana, að þá geti fundur staðið til tólf — það er þá grundvallarmunur á því og því sem við greiðum atkvæði um hér. Það er með einhliða ákvörðun forseta sem fundur stendur til tólf. Það þarf ekki að bera slíkt undir þingið.

Hér greiðum við atkvæði þar sem afl atkvæða ræður úrslitum. Þegar ekki er samkomulag um annað, hvorki á milli þingflokka eða með öðrum hætti, getur meiri hluti þingsins ákveðið að fallast á tillögu forseta og það vita allir hér í salnum hvað hún þýðir. Hún þýðir að fundurinn geti staðið allt að því svo lengi að dagskráin verði tæmd. (Gripið fram í.) Í gær stóð fundurinn ekki svo lengi, heldur var ákveðið að slíta fundi fyrr.