135. löggjafarþing — 107. fundur,  23. maí 2008.

afbrigði um lengd þingfundar.

[11:05]
Hlusta

Birkir Jón Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Það var athyglisverð ræða sem hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir beindi til okkar stjórnarandstæðinga. Staðreyndin er sú að fluttar voru málefnalegar ræður um leikskólastigið og grunnskólastigið í gær og fram á nótt. Ef stjórnarliðunum finnst að við séum að eyða of (Gripið fram í.) löngum tíma að eyða heilum degi í að fjalla um allt leikskólastigið og allt grunnskólastigið þá finnst mér það mjög skrýtið gildismat hjá stjórnarliðum.

Að koma svo hingað upp og fella palladóma yfir ræðum okkar stjórnarandstæðinga finnst mér í besta falli broslegt því að ræður okkar í gær voru málefnalegar um mjög mikilvæg mál. Við stjórnarandstæðingar erum að reyna að knýja það í gegn að þau mál fái efnislega umfjöllun, ítarlega og vandlega, en því miður virðast stjórnarliðar ætla að beita meiri hluta sínum á þingi (Forseti hringir.) til þess að koma í veg fyrir það.