135. löggjafarþing — 107. fundur,  23. maí 2008.

afbrigði um lengd þingfundar.

[11:10]
Hlusta

Jón Magnússon (Fl):

Virðulegi forseti. Í gær og fram á nóttina fóru fram málefnalegar umræður um leikskólafrumvarp og frumvarp til grunnskólalaga. Það var ekki um að ræða hroka, yfirlæti eða eitt eða neitt í því sambandi. Ágætt samkomulag náðist um með hvaða hætti þeim umræðum skyldi ljúka og ég tel að það hafi verið þeim forseta til sóma sem að því stóð og tekist hafi að ljúka þingstörfum á eðlilegan hátt.

Nú erum við að ræða hvernig við ætlum að halda áfram þingstörfum og það skiptir máli að við getum haldið áfram og gengið til dagskrár sem allra fyrst. Virðulegur forseti hefur boðað til þess að fundur verði til að ræða framhald þinghaldsins þrátt fyrir að fyrir liggi að meiri hluti hafi greitt atkvæði með því að þessari umræðu megi ljúka. Ég tel að með því sé forseti að leggja sitt af mörkum til að samkomulag náist og ég tel að við í stjórnarandstöðunni eigum að sætta okkur við það og vonast til þess að jákvæð niðurstaða fáist og hefja almenn þingstörf sem boðuð eru í dagskrá.