135. löggjafarþing — 107. fundur,  23. maí 2008.

afbrigði um lengd þingfundar.

[11:13]
Hlusta

Atli Gíslason (Vg):

Herra forseti. Það vekur undrun mína að það sé kallaður hroki að vilja virða þingsköp og vilja virða skýran vilja hæstv. forseta Sturlu Böðvarssonar. Hann segir skýrt í ræðu sinni í umræðum um þingskapafrumvarpið að mikilvægt sé að áætla tíma fyrir fram, hann segir beinlínis að næturfundir ættu ekki að þekkjast og hann segir beinlínis að þingmenn og starfsfólk Alþingis eigi eins og annað fólk að geta sinnt eðlilegu fjölskyldulífi.

Það segir líka í markmiðum frumvarpsins í greinargerð, sem er skýrt lögskýringargagn, með leyfi forseta:

„Þingfundir standi að jafnaði ekki lengur en fram að kvöldmat en sé þörf á lengri fundartíma sé því beint inn á eitt kvöld vikunnar, þ.e. þriðjudagskvöld. Þingmenn geta þá haft það í huga við skipulagningu starfa sinna í viku hverri.“

Svo mörg voru þau orð. Enn fremur lagði forsetinn ríka áherslu á að samkomulag tækist áður, að ekki væri sett fram einhliða tillaga í þessa veru. Hér er brotið gegn þingsköpum, brotið gegn (Forseti hringir.) skýrum löggjafarvilja og brotið gegn skilgreiningum (Forseti hringir.) í frumvarpi um þingsköp.