135. löggjafarþing — 107. fundur,  23. maí 2008.

afbrigði um lengd þingfundar.

[11:17]
Hlusta

Birkir Jón Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Ég tek heils hugar undir með hv. þm. Steinunni Valdísi Óskarsdóttur. Förum að vinna eins og manneskjur. Það er það sem við stjórnarandstæðingar höfum verið að leggja af mörkum í umræðunni. Við viljum fá svör frá hæstv. forseta um hversu lengi við ætlum að starfa hér í dag. Við skulum fara að vinna eins og manneskjur. Að sjálfsögðu eykur það ekki virðingu þingsins ef við ætlum að stefna störfum þingsins í eintóma næturfundi. Það eykur ekki virðingu þingsins. Við stjórnarandstæðingar viljum standa vörð um virðingu þingsins. Við viljum fá svör frá hæstv. forseta um það hversu lengi við ætlum að ræða málefni grunn- og framhaldsskóla. Ætlum við að gera það um hánótt? Eykur það virðingu þingsins, t.d. gagnvart framhaldsskólakennurum, að við klárum umræðuna um framhaldsskólana um miðja nótt? Ég spyr: Hverjir eru að gæta virðingar þingsins? Ég er ekki frá því að það séu stjórnarandstæðingar á þingi.