135. löggjafarþing — 107. fundur,  23. maí 2008.

afbrigði um lengd þingfundar.

[11:18]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Ég á það sameiginlegt með hv. þm. Steinunni Valdísi Óskarsdóttur að vera tiltölulega nýr á þingi en hafa um langt skeið tekið þátt í stjórnmálum á öðrum vettvangi, á sama vettvangi og hún. Vissulega get ég tekið undir það með henni að margt í vinnubrögðum hér og í þessum störfum kemur á óvart.

Ég er þeirrar skoðunar að ná eigi sem bestu samkomulagi um störf þingsins. Það skýtur því skökku við að engir tilburðir skuli vera hafðir uppi af hálfu stjórnar þingsins til að ná einhverju slíku samkomulagi til að hægt sé að setja þingstörfin í ákveðinn ramma. Það skýtur líka skökku við þegar verið er að nýta undanþáguákvæði, má segja, þingskapalaganna til að lengja fundi skuli byrjað á því að hafa atkvæðagreiðslu um hvort fundur eigi að standa lengur en síðan boðið upp á fund með þingflokksformönnum til að freista þess að ná samkomulagi. Af hverju er ekki byrjað á því að reyna áður en þingfundir hefjast að ná samkomulagi milli þingflokkanna um hvaða ramma þingstörfunum er skapaður á hverjum degi fyrir sig?