135. löggjafarþing — 107. fundur,  23. maí 2008.

Suðurstrandarvegur.

[11:24]
Hlusta

Guðni Ágústsson (F):

Hæstv. forseti. Nú mun þjóðin og þingið spyrja: Hvort ruglaði hæstv. ráðherra í viðtali í sjónvarpsstöð í gær eða hér? Svo óskiljanlegt er viðtalið frá gærdeginum um frestun þessara framkvæmda og að það sé ekki á dagskrá. Svo kemur hann hér og segir að þetta sé allt saman á fullri ferð. Ég fagna því auðvitað ef allt er á fullri ferð. Fyrir því hef ég barist lengst allra manna og vissulega fannst mér mikilvægt að fá meiri peninga út frá mótvægisaðgerðunum og því áfalli sem Þorlákshöfn og Grindavík urðu fyrir og mikilvægi þessa vegar. En hins vegar botna ég ekkert í hæstv. ráðherra hvernig hann getur talað í dag í málinu af því að ég er bara með í höndunum það sem hann sagði á Stöð 2 í gær. (Gripið fram í.) En guði sé lof að hann fór með rangt mál á stöðinni í gær og þetta er allt saman að fara á fulla ferð eins og hann segir. Það er mjög mikilvægt og það styðjum við framsóknarmenn og höfum barist fyrir því.

Hins vegar þarf ráðherra ekki að vera að tala til okkar með hroka og skamma Sjálfstæðisflokkinn í leiðinni því við höfum á síðustu árum staðið (Forseti hringir.) fyrir mestu vegaframkvæmdum á Íslandi (Forseti hringir.) í sögunni og sem betur fer ætlar núverandi ríkisstjórn að halda því áfram.