135. löggjafarþing — 107. fundur,  23. maí 2008.

Suðurstrandarvegur.

[11:26]
Hlusta

samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Virðulegi forseti. Það er gott að ég get tekið þátt í því að gera daginn gleðilegan fyrir hv. formann Framsóknarflokksins á eins árs afmæli ríkisstjórnar. Aðeins út af því sem hann er að gera að aðalatriði, þ.e. hádegisviðtal í gær þar sem vitnað var í það sem ég átti að hafa sagt. Ég hef skoðað þau ummæli, virðulegi forseti, og það sem þar kom fram um að haft væri eftir mér að Suðurstrandarvegur færi í eitt allsherjarútboð, er bara ekki rétt. Það voru ekki mín orð í því viðtali. Það sem haft var þar eftir mér kom fram innan gæsalappa og var rétt eftir haft, en að ég hafi einhvern tíma talið að vegurinn færi allur í eitt útboð hefur aldrei verið.

Virðulegi forseti. Aðalatriðið er að þessi 58 km vegur þar sem aðeins er lokið við 8,6 km er að fara í útboð. Fyrsti áfangi hefur verið stækkaður út frá því sem ég gat um áðan. Undirbúningurinn hefur e.t.v. tekið örlítið lengri tíma en ætlað er. Þannig getur ýmislegt komið upp út af þeim atriðum (Forseti hringir.) sem ég nefndi áðan en aðalatriðið (Forseti hringir.) er að ríkisstjórnin flýtti þessari framkvæmd (Forseti hringir.) og þetta hefur farið í útboð.