135. löggjafarþing — 107. fundur,  23. maí 2008.

Lækkun matvælaverðs.

[11:29]
Hlusta

viðskiptaráðherra (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Í þessu samhengi kom mjög fróðleg skýrsla frá Samkeppniseftirlitinu í fyrradag þar sem fjallað er mjög ítarlega um viðskiptasamninga, birgja og annað samstarf fyrirtækja á matvörumarkaði þar sem Samkeppniseftirlitið rannsakar mjög nákvæmlega samskipti smásala og heildsala á matvælamarkaði og boðar í framhaldi af því heilmiklar frekari rannsóknir og athuganir á ýmsu þar í. Eitt af því sem þar kemur fram er að átt hafi sér stað mikil samþjöppun á smásölumarkaði frá 1992 þegar stærsti aðilinn þá var með 33% en nú samkvæmt upplýsingum um tekjur lágvöruverslana hefur hann aukið sinn hlut og eru Hagar núna með um 50% markaðshlutdeild í sölu á dagvöru á landinu öllu, Kaupás með 22% og Samkaup 15%. Þetta er svona svipað og verið hefur síðustu 4–5 árin. Ljóst er að íslenskur markaður er á öllum sviðum fákeppnismarkaður og við það bætist mikil fjarlægð frá öðrum og stærri mörkuðum. Við búum því við fákeppni í samfélagi okkar og víða er samkeppnisbrestur á ferðinni. Hægt er að taka á þessu með ýmsum leiðum, lækkun á viðskiptahindrunum á innflutningi skiptir örugglega máli til að lækka verð til neytenda. Ég er alveg sannfærður um það. Hvað varðar virðisaukaskattslækkunina í fyrra skilaði hún sér ekki af fullu afli eins og menn höfðu vænst. En ég held hins vegar að væntingarnar hafi líka verið óraunhæfar þar um en vissulega skiluðu þær sér ekki eins og átti að gera.

Það sem skiptir mjög miklu máli í þessu sambandi er að stórefla neytenda- og samkeppniseftirlit á þessum markaði. Virkara og öflugra samkeppniseftirlit skilar meiri árangri en nokkuð annað til að tryggja neytendum hagstæðasta verð sem hugsast getur, sérstaklega þegar litið er til fjarlægðar frá öðrum mörkuðum og þeirrar fákeppni sem ríkir hérna á eiginlega öllum sviðum.