135. löggjafarþing — 107. fundur,  23. maí 2008.

lækkun matvælaverðs.

[11:33]
Hlusta

viðskiptaráðherra (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Herra forseti. Ég tek undir það með hv. þingmanni að skortur á samkeppni leiðir alltaf til þess að neytendur þurfa að borga hærri verð fyrir vöruna og það brotnar á neytendum með ýmsum hætti. Þess vegna er þetta alltaf stóra spurningin: Hvernig getum við aukið samkeppni í íslensku samfélagi á sem allra flestum sviðum? Því færri viðskiptahindranir innan lands eða á milli landa stuðla alveg örugglega að því að lækka verð til neytenda. Það getur hins vegar komið illa við framleiðendur á öðrum sviðum ef ekki er gengið fram með sanngjörnum og skynsamlegum hætti við að lækka innflutningsverndina eða viðskiptahindranirnar sem þar um ræðir.

Það getur vel verið að eitthvað af þessu lendi í vösum smásöluverslana og kaupmanna en örugglega mundi það skila sér til neytenda að einhverju leyti eins og virðisaukaskattslækkunin í fyrra skilaði sér að einhverju leyti til neytenda þó að hún hafi ekki gert það að öllu leyti. Það eru að sjálfsögðu vonbrigði að sú lækkun skilaði sér ekki með myndarlegri hætti í vasa neytenda en hún gerði það samt að hluta. Síðan hverfur hún að sjálfsögðu inn í verðlagsþróun og annað en hún hafði sín áhrif en ekki þau sem vænst var. Mestu skiptir (Forseti hringir.) að stórefla samkeppniseftirlit með leikreglum á markaði.