135. löggjafarþing — 107. fundur,  23. maí 2008.

vistunarmat.

[11:47]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Ég vil aðeins spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra út í vistunarmat. Undanfarið hefur verið fréttaflutningur um að biðin hjá öldruðu fólki á Landspítalanum eftir vistun og hjúkrunarrýmum hafi styst. Af opinberum fréttaflutningi að dæma má ætla að það sé vegna einhverra breytinga sem gerðar voru í febrúar.

Það er nú alls ekki þannig og mig langar aðeins að rifja upp forsöguna af því að sú er hér stendur beitti sér fyrir því að gerð var breyting á vistunarmatinu samkvæmt lögum í mars 2007. Aðdragandinn var sá að ég gaf út stefnu um öldrunarmál sumarið 2006 þar sem tekið var á því að breyta ætti vistunarmatinu til þess að gera það faglegra. Við blasti að það var ekki nógu faglegt og æ fleiri upplýsingar urðu til þess að sú stefna var sett fram. Málið fór inn í þingið og allir flokkar samþykktu málið þannig að það var þverpólitísk samstaða um að breyta vistunarmatinu, gera það faglegra. Síðan var sett reglugerð í framhaldinu, í desember að mig minnir, af núverandi hæstv. ráðherra og það var ágætt. Það var gert á grundvelli nýrra laga þannig að vistunarmatshópunum var fækkað úr 40 í innan við 10. Þrír fagaðilar voru settir í hvern hóp. Gamla kerfið á hjúkrunarheimilunum var þannig að stjórnirnar þar gátu valið fólk af lista yfir þá sem höfðu mesta þörf fyrir hjúkrunarrými og sá listi var ekki nógu faglegur.

Núna eru bara þrír einstaklingar sem stjórnirnar fá að velja úr og sá listi er unninn með miklu faglegri hætti en áður. Á honum er fólk sem er í brýnni þörf fyrir vistun og eins fólk sem hefur beðið á Landspítalanum í sex vikur. Kerfið sem við á Alþingi vorum alltaf sammála um að setja upp er nú farið að virka. Það er mjög gleðilegt. Hins vegar er vandinn núna sá að mörg sveitarfélög hafa dregið úr félagslegri þjónustu og síðasta skýrsla Ríkisendurskoðunar sýnir það líka þannig að það hefur verið of mikill þrýstingur á hjúkrunarheimilin. (Forseti hringir.) Ég vil þess vegna spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra hvort hann (Forseti hringir.) sé með áætlanir um það í samstarfi við hæstv. félagsmálaráðherra (Forseti hringir.) að taka á þessum sveitarfélögum.