135. löggjafarþing — 107. fundur,  23. maí 2008.

vistunarmat.

[11:49]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Það er rétt sem fram kemur hjá hv. þingmanni að eftir að þessi reglugerð var sett — hún tók gildi 1. janúar ef ég man rétt — og menn fóru að vinna eftir henni hefur náðst mikill árangur. Þegar biðlistinn eftir öldrunarrými á Landspítalanum var sem lengstur taldi hann 140 manns. Ef ég man rétt voru það 70 manns síðasta haust en núna er hann orðinn mjög viðráðanlegur sem er mjög ánægjulegt. Það kemur til vegna þess að þegar menn fóru að vinna eftir þessari nýju reglugerð sem er byggð á heilbrigðislögunum hafa menn náð að gera þetta með mun faglegri hætti en áður var. Að auki hjálpa til önnur úrræði eins og t.d. sá samningur sem gerður var við Heilsuverndarstöðina og sömuleiðis hjálpar til sú deild sem sett var af stað eftir útboð á Landakoti eins og við þekkjum.

Ég verð víst að biðja hv. þingmann að endurtaka spurninguna varðandi að taka á ákveðnum sveitarfélögum. Það liggur alveg fyrir að eitt af þeim stóru verkefnum sem þessi ríkisstjórn fæst við snýr að öldruðum og þjónustu við þá. Margt hefur verið gert frá því að þessi ríkisstjórn tók við og t.d. er lagt upp með að sameina heimaþjónustu og heimahjúkrun. Hins vegar er mikil og flókin vinna fram undan, sérstaklega þegar kemur að stóru sveitarfélögunum, en við höfum unnið ötullega að þessu máli frá því að ríkisstjórnin tók við, bæði með Reykjavíkurborg og öðrum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu. Á sama tíma vinnur ríkisstjórnin að aukinni þjónustu hvort sem það eru hjúkrunarrými eða aukin heimaþjónusta því að markmiðið hlýtur að vera — og við þurfum að leggja meira upp úr því — að gefa því fólki sem hefur tækifæri til þess að vera eins lengi heima hjá sér og mögulegt er.