135. löggjafarþing — 107. fundur,  23. maí 2008.

staðan á fasteignamarkaðnum og Íbúðalánasjóður.

[11:54]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég þakka fyrir að þessi umræða skuli komast hér að í önnum þingsins á lokadögum og þakka hæstv. ráðherra fyrir að verða fyrir svörum.

Það er kunnara en frá þurfi að segja að það er afar viðkvæm staða uppi á fasteignamarkaði núna. Við því var að sjálfsögðu að búast að dregið gæti úr eða að stöðvast gætu þær miklu hækkanir á fasteignaverði sem orðið hafa undanfarin ár, talsvert á annað hundrað prósent umfram verðlag ef litið er nokkur ár til baka. Það er jafnljóst að það er afar varhugavert og hefur neikvæðar afleiðingar fyrir almenning og hagkerfið ef sú kólnun verður of hröð eða markaðurinn frýs, ég tala nú ekki um ef raunverð lækkar um tugi prósenta. Hér þarf því að hyggja að mörgu.

Nú eru merki um að fasteignaverð er tekið að lækka um 0,4% síðustu vikur, sem er umtalsverð lækkun þegar tekið er mið af verðbólgu. Það er auðvitað ekki síður áhyggjuefni að það eru vísbendingar um vaxandi greiðsluerfiðleika hjá almenningi. Það þarf engan að undra þegar gengi sumra erlendra mynta sem lánað hefur verið í til íbúðarkaupa á undanförnum tveim, þrem árum eins og japanska jensins og svissneska frankans hefur hækkað um 30–40% gagnvart krónu. 12% verðbólga með hækkun verðbótaþáttar segir líka til sín.

Auðvelt er að taka dæmi um tugþúsunda hækkun greiðslubyrði á milli ára. Ég er hér með í höndunum t.d. dæmi af ungu fólki sem keypti íbúð í júní fyrra og tók blönduð lán í erlendum myntum hjá bönkum og Íbúðalánasjóði. Greiðslubyrðin vegna vaxtanna einna af erlendu lánunum, sem eru afborgunarlaus fyrstu tvö árin, hefur hækkað um á þriðja tug þúsunda á þessu eina ári. Verðbótaþátturinn af verðtryggðu láni sem tekið var 2005 hefur hækkað um 10 þús. kr. á mánuði hverjum og þannig mætti áfram telja.

Vísbendingar um vaxandi erfiðleika sjást m.a. í því að nú er kominn umtalsverður biðlisti hjá Ráðgjafarstofu heimilanna og greiðsluerfiðleikaumsóknir hjá Íbúðalánasjóði hafa nú aukist um allmörg prósent milli mánaða. Þær voru 5% fleiri í síðasta mánuði en á sama tíma fyrir ári og er talið að þær muni aukast um 10–15% í lok þessa mánaðar, borið saman við sama mánuð í fyrra. Nauðungarsölubeiðnum hefur ekki fjölgað milli ára að heitið geti en kröfulýsingum hjá sýslumönnum landsins hefur fjölgað úr 180 á fyrri helmingi síðasta árs í um 300 á fyrri helmingi þessa árs. Það er enginn vafi á því að það er erfiðara nú en hefur verið um áratuga skeið fyrir ungt fólk að komast yfir eigið íbúðarhúsnæði og það eru ungu skuldsettu fjölskyldurnar með íbúðarlán, bílakaupalán og námslán á bakinu sem nú eru í mestum erfiðleikum. Við þessar aðstæður er ákaflega óheppilegt að hrófla við Íbúðalánasjóði. Ummæli fjármálaráðherra frá fundi Samtaka iðnaðarins nú á dögunum vita ekki á gott í þeim efnum en þar boðar hæstv. fjármálaráðherra fulla markaðsvæðingu allrar almennrar starfsemi Íbúðalánasjóðs og væntanlega þá með tilheyrandi hækkun vaxta þegar þess væri frekar þörf að Íbúðalánasjóður gæti aukið fyrirgreiðslu sína við fólk til að örva fasteignamarkaðinn.

Við skulum rétt vona að hæstv. ríkisstjórn taki þessa hluti alvarlega og skoða úrræði og viðbrögð og því verður fróðlegt að heyra hvað hæstv. félagsmálaráðherra hefur fram að færa í þeim efnum.

Ég spyr: Ætlar ríkisstjórnin að skoða það af einhverri alvöru að auka verulega stuðning við fólk í erfiðleikum í þessum efnum, t.d. með því að hækka stórlega vaxta- og húsaleigubætur? Er ríkisstjórnin tilbúin til að skoða nú í samstarfi við sveitarfélögin í landinu að gera leikskólann gjaldfrjálsan? Það væri gríðarleg kjarabót fyrir ungu barnafjölskyldurnar sem eru einmitt þær sem bera mestar byrðar af skuldum vegna íbúðarkaupa á undanförnum árum. Verður Íbúðalánasjóður látinn í friði? Fær hann að starfa og gegna hlutverki sínu af myndugleik, jafnvel auka fyrirgreiðslu við fólk sem á í erfiðleikum og til að halda fasteignamarkaðnum gangandi? Það er gott og vel að hvetja til aðgæslu eins og hæstv. forsætisráðherra hefur gert en menn þurfa þak fyrir höfuðið á Íslandi. Verður Ráðgjafarstofa (Forseti hringir.) heimilanna efld þannig að þar þurfi ekki að vera biðlistar? Verður aðstoð (Forseti hringir.) aukin við fólk í greiðsluerfiðleikum, svo nokkur dæmi séu tekin?