135. löggjafarþing — 107. fundur,  23. maí 2008.

staðan á fasteignamarkaðnum og Íbúðalánasjóður.

[12:07]
Hlusta

Ólöf Nordal (S):

Hæstv. forseti. Það hefur verið býsna rólegt á fasteignamarkaði að undanförnu og ætli þeim fasteignasölum sem fyrir ári síðan höfðu vart við að útbúa kaupsamninga sé ekki nokkuð brugðið. Sannleikurinn er samt sá að sú gegndarlausa hækkun sem verið hafði og mér liggur við að segja sú endalausa sala hlaut að gefa eftir. Gleymum heldur ekki þeim aðstæðum sem hafa skapast á alþjóðlegum mörkuðum sem án efa hafa haft töluverð áhrif. En gáum samt að því þegar þessi markaður er skoðaður að fyrst og fremst hefur verið um að ræða þenslu á höfuðborgarsvæðinu. Það má segja að eina svæðið þar fyrir utan þar sem einhver hækkun hefur verið að ráði sé á Miðausturlandi. Engu að síður finnst mér sjálfsagt að minna á vegna þess að stöðugt hefur verið talað um þensluna á Austurlandi að á fasteignamarkaði á höfuðborgarsvæðinu hefur án efa verið byggt sem samsvarar þremur Kárahnjúkavirkjunum.

Frú forseti. Ríkisstjórnin undirbýr nú breytingu á skipulagi Íbúðalánasjóðs. Við eigum von á því að breytingin verði einhvern veginn í þá átt að almenn lán og félagsleg lán verði aðskilin. Ég er eindregið þeirrar skoðunar að ríkið eigi sem minnst að vasast í þeirri starfsemi sem einkaaðilar geta gert jafnvel betur. (Gripið fram í.) Ég ætla þó ekki að draga fjöður yfir það að bankarnir óðu dálítið hratt inn á íbúðalánamarkaðinn en við skulum muna að þær lánveitingar voru að langmestu leyti bundnar við höfuðborgarsvæðið. Um leið og verið er að huga að þróun íbúðalánakerfisins í landinu er það algert grundvallaratriði og skylda okkar að átta okkur á því að þjóðin býr ekki öll í Vesturbæ Reykjavíkur. Það er ekki til neins að tala um störf án staðsetningar ef ekki er tryggt að fólk geti keypt sér þak yfir höfuðið. Það skiptir okkur máli að byggð haldist í landinu og það gengur engan veginn að sogið hingað suður sé öllu öðru sterkara. Það getur haft neikvæð áhrif fyrir verðmætasköpun í landinu. Þess vegna hvet ég ríkisstjórnina til að gæta að öllum þessum atriðum þegar þetta mikilvæga mál er skoðað og vonandi farsællega til lykta leitt.