135. löggjafarþing — 107. fundur,  23. maí 2008.

staðan á fasteignamarkaðnum og Íbúðalánasjóður.

[12:09]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Það hafa verið mjög sérstakar aðstæður á fasteignamarkaði á höfuðborgarsvæðinu á undanförnum fjórum árum eða frá því að bankarnir hófu innreið sína inn á þennan lánamarkað með alkunnum afleiðingum. Verðlag á íbúðarhúsnæði á þessu svæði hefur hækkað sem aldrei fyrr og einhvern tíma nýlega sá ég upplýsingar um að verðhækkun á fasteignamarkaði á höfuðborgarsvæðinu á Íslandi hefði frá 2004 verið helmingi meiri en hún var í London.

Menn verða að gæta að því að það skapar auðvitað mikil vandamál þegar íbúðaverð hækkar mjög mikið vegna þess að fólkið sem kaupir íbúðirnar þarf að borga þær og greiða af launum sínum. Þessi mikla hækkun íbúðaverðs kemur við pyngju almennings. Þegar dregur úr kaupmættinum eins og er að gera núna og trúlega á næsta ári þá er eðlilegt að íbúðaverð lækki í samræmi við það. Og þó að íbúðaverð lækki um 15–20% á næstu tveimur árum þá mun íbúðaverðshækkun á höfuðborgarsvæðinu samt verða jafnmikil eða meiri en hún hefur verið í London á þessum tíma.

Það er ekki slæmt fyrir íbúðarkaupendur á höfuðborgarsvæðinu að verð lækki hér og nálgist byggingarkostnaðarverð þannig að gróðinn frá sölu hverrar íbúðar lækki frá því sem hann hefur verið og gróði bankanna og byggingarverktakanna verði eitthvað minni en verið hefur. Það er ekkert slæmt fyrir fólkið sem kaupir íbúðirnar og ég vil fara þess á leit við hæstv. ráðherra að hún fari ekki að beita sér sérstaklega fyrir aðgerð til að halda íbúðaverði áfram háu. Það er ekki aðgerð sem er almenningi til góða, virðulegi forseti.

Ég vil segja svo að lokum að ég skil ekki alveg hvað ráðherrann á við með breytingum á Íbúðalánasjóði. Ég þekki það orðalag frá síðasta kjörtímabili sem ráðherrann boðar og það vekur ugg í brjósti mínu því ég veit alveg hvaða áform voru á bak við það orðalag á síðasta kjörtímabili og mér finnst einkennilegt, virðulegi forseti, ef þingflokkur Samfylkingarinnar hefur étið það sem þingflokkur Framsóknarflokksins gat aldrei kyngt á síðasta kjörtímabili.