135. löggjafarþing — 107. fundur,  23. maí 2008.

afstaða ríkisstjórnarinnar til hrefnuveiða.

[12:29]
Hlusta

Guðni Ágústsson (F):

Hæstv. forseti. Undanfarna daga hefur þjóðin orðið vitni að vinnubrögðum í ríkisstjórn Íslands sem ég hef á öllum mínum ferli í stjórnmálum aldrei séð fyrr. Í öllum nálægum lýðræðisríkjum hefði forsætisráðherra beðist lausnar fyrir sig og ríkisstjórn sína hefði slíkur trúnaðarbrestur orðið opinber. Ísland þarf ekki síður en aðrar þjóðir að eiga eina þjóðarsál þegar mikið liggur við eins og nú.

Sjávarútvegsráðherra styðst við ályktun Alþingis um hvalveiðar frá árinu 1999 þegar hann gefur út leyfi til veiða á 40 hrefnum. Í þeirri ályktun segir, með leyfi forseta:

„Alþingi leggur áherslu á óskoraðan fullveldisrétt Íslands við nýtingu hvalastofna á íslensku hafsvæði í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar um sjálfbæra nýtingu lifandi auðlinda.“

Ég tel ábyrgð hæstv. forsætisráðherra mikla í þessu máli. Hann mátti vita um margítrekuð vinnubrögð Samfylkingarinnar, að opinbera sérstöðu sína og andstöðu við ýmis stórmál og tala út og suður hefur verið þeirra leikrit. Forsætisráðherra hefur greint frá því hér að ríkisstjórnin hafi ekki rætt þessa ákvörðun og dregið fram að ekkert standi í stjórnarsáttmála flokkanna um hvalveiðar. Þvílíkur barnaskapur. Alvöruþjóðir og ríkisstjórnir standa saman í málum sem þessum. Forsætisráðherra er ekki bara fundarstjóri í ríkisstjórn Íslands, hlutverk hans er að vera leiðtogi sem leiðir fram niðurstöðu og trúverðugleika í allri málsvörn.

Ísland stendur nú veikt á alþjóðavettvangi og ég vil spyrja hæstv. forsætisráðherra: Mun hann treysta utanríkisráðherra til að verja Ísland í hrefnuveiðimálinu? Hvað segir yfirlýsing hæstv. utanríkisráðherra, Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, sem hafði hvatt fyrri ríkisstjórn til að tala ekki tungum tveim?

Formaður Samfylkingarinnar, hæstv. núverandi utanríkisráðherra, sagði í umræðu um hvalveiðar í október 2006, með leyfi forseta:

„Ég held að það sé rangt hagsmunamat hjá ríkisstjórninni sem hafi farið fram í þessu máli. En það er önnur saga. Hitt er alvarlegra að menn tali tungum tveim í ríkisstjórninni.“ — Þetta sagði hún þá.

Yfirlýsing utanríkisráðherra síðastliðinn mánudag hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Nú þegar sjávarútvegsráðherra tekur ákvörðun um útgáfu reglugerðar um hrefnuveiðikvóta, er það skýrt á milli ráðherra í ríkisstjórninni að ráðherrar Samfylkingarinnar eru ekki fylgjandi þessari ákvörðun. Útgáfa reglugerðar um hrefnuveiðikvóta er ákvörðun sjávarútvegsráðherra, tekin í framhaldi af stefnu sem hann mótaði 2006. Sjávarútvegsráðherra hefur stjórnskipulegt forræði á útgáfu reglugerðar sem þessarar án þess að hún komi til afgreiðslu í ríkisstjórn. Sem utanríkisráðherra tel ég að verið sé að fórna meiri hagsmunum fyrir minni þrátt fyrir að kvótinn sé minni í ár en fyrri ár. Ég mun á erlendum vettvangi og þar sem þess gerist þörf útskýra þau rök um sjálfbæra nýtingu hrefnustofnsins sem að baki liggja.“

Afstaða Samfylkingarinnar til ýmissa mála er kapítuli út af fyrir sig en opinber ágreiningur ríkisstjórnar skaðar og veikir málstað Íslands. Það sér hvert mannsbarn. Hæstv. sjávarútvegsráðherra hefur verið lítillækkaður og staða hans er veikari á eftir. Utanríkisráðherra hefur gripið til aðgerða sem eru fáheyrðar og ganga hreinlega ekki upp. Þær þjóðir sem nú berjast fyrir nýtingu auðlinda sinna í hvalveiðum tryggja samstöðu í ríkisstjórn landsins og hafa þingið að baki sér, hafa þannig eina þjóðarsál í málinu. Kastljósi átaka hefur með þessum vinnubrögðum verið beint að Íslandi eins og við séum eina þjóðin sem stundar hvalveiðar í litlum mæli. Hver heyrir hinar þjóðirnar nefndar sem hvalveiðar stunda og eru í Alþjóðahvalveiðiráðinu? Er einhver að takast á við Noreg, Japan eða Grænland svo ekki sé talað um þá miklu tvískinnungsþjóð Bandaríkin sjálf? Þessar þjóðir tryggja samstöðu sína heima fyrir, þar eru forsætisráðherrar sem tryggja eina rödd, forsætisráðherrar sem líða ekki tvískinnung og tungur tvær í átakamálum sem snerta þjóðarhagsmuni og þjóðarrétt til nýtingar á auðlindum.

Hin tvíklofna ríkisstjórn hefur með þessu skaðað trúverðugleika Íslands og Íslendinga við aðstæður á tímapunkti þar sem við þurftum á öllu okkar að halda. Ólafur gamli á Hrísbrú sagði að hreppsnefndin ætti að ekki að vera nein skemmtinefnd. Ríkisstjórn landsins ætti ekki að skemmta skrattanum með svona tvískinnungi. Finnst hæstv. forsætisráðherra þessi staða ásættanleg? Ég spyr og vil fá skýr svör frá hæstv. forsætisráðherra hvort hann harmi ekki (Forseti hringir.) þessa yfirlýsingu og þessa framkomu samstarfsflokksins?