135. löggjafarþing — 107. fundur,  23. maí 2008.

afstaða ríkisstjórnarinnar til hrefnuveiða.

[12:34]
Hlusta

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Virðulegi forseti. Þetta mál bar á góma í þingsal fyrir tveimur dögum og ég rakti þá sjónarmið mín hvað þetta varðar og skal ekki endurtaka þau. Vissulega er óvenjulegt að stjórnarflokkur geri opinberan ágreining og ráðherrar hans um mál sem einn ráðherra hefur forræði yfir og hefur tekið ákvarðanir í en það vill þannig til að hér er ekki um að ræða neitt stórmál. Þetta er ekki mál sem á Norðurlöndum mundi vera kallað „kabinet“-mál, spurning um hvort ríkisstjórn situr eða situr ekki. Þetta er ekki stórmál af því tagi. Þetta er frekar lítið mál, þetta snýst um 40 hrefnur. Ágreiningurinn í þessu máli snýst ekki um náttúruverndarsjónarmið, það talar enginn um að það sé ekki sjálfbærni sem felst í þessum veiðum, það dettur engum manni í hug að halda því fram að það sé óábyrgt að veiða þessa hvali með þeim hætti sem hér er gert. Málið snýst eingöngu um hvaða mat fólk leggur á þetta mál gagnvart öðrum hagsmunum. Ferðamönnum hér á landi hefur fjölgað stöðugt á hverju einasta ári undanfarin ár þrátt fyrir hrefnuveiðarnar og það er ekki hægt að halda því fram að þær hafi haft einhver áhrif í þá átt að draga úr ferðamannastraum.

Hv. þm. Guðni Ágústsson gerir allt of mikið úr þessu máli, það er engin ástæða til þess. Ég held að við ættum að standa saman um það, ég og hann, að ljúka þessum veiðum á grundvelli þeirrar þingsályktunar sem samþykkt var á Alþingi 1999. Hún er sá grundvöllur sem hæstv. sjávarútvegsráðherra byggir ákvörðun sína á og á grundvelli hennar var líka starfað í síðustu ríkisstjórn þó að þar kunni hafa verið eitthvað misjafnar skoðanir á þessu máli eins og nú. Við erum að fylgja fram rétti okkar til að nýta auðlindir náttúrunnar með sjálfbærum hætti og þó að um það séu skiptar skoðanir er forræði málsins á hendi sjávarútvegsráðherra. Hann hefur grunn sem felst í þessari ályktun Alþingis, eins og hv. þingmaður las hér upp, og þeim grunni hefur ekki verið breytt.