135. löggjafarþing — 107. fundur,  23. maí 2008.

afstaða ríkisstjórnarinnar til hrefnuveiða.

[12:43]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Hér velta menn því fyrir sér hvort þetta sé lítið eða stórt mál. Þetta er lítið mál að því leyti að verið er að heimila að veiða innan við 0,1% af hrefnustofninum, 40 dýr af 44 þúsund dýrum sem eru í kringum Ísland. Það er auðvitað mjög lítið úr þessum stofni, það væri hægt að veiða miklu, miklu meira. En þetta er stórt mál að því leyti að ríkisstjórnin er algjörlega klofin í því, hún er klofin í tvennt. Sjávarútvegsráðherra heimilar veiðarnar, og ég skil það svo að allir ráðherrar Sjálfstæðisflokksins styðji það, en samfylkingarráðherrarnir gefa allir út yfirlýsingu um að þeir séu á móti þessari stefnu.

Hæstv. utanríkisráðherra Ingibjörg Sólrún Gísladóttir segir í viðtali í lok maí í fyrra að það séu skiptar skoðanir um þessi mál milli stjórnarflokkanna en þeir verði bara að leiða málin sameiginlega til lykta. Það er ekki hægt að túlka þessi orð öðruvísi en svo að Samfylkingin hafi gjarnan viljað ná einhverri sameiginlegri niðurstöðu. Sami þingmaður, hæstv. núverandi utanríkisráðherra, segir í lok árs 2006:

„… þessi mál koma auðvitað ekki síst til kasta umhverfisráðherra þegar umhverfisverndarsamtök fara af stað, eins og nú hefur gerst. Þá skiptir máli að ríkisstjórnin tali einum rómi en það sé ekki sjávarútvegsráðherra sem segi eitt og svo kannski umhverfisráðherra eitthvað allt annað …“

Það er einmitt að gerast núna og það er ekki bara umhverfisráðherra sem ætlar að segja eitthvað allt annað heldur líka hæstv. utanríkisráðherra þó að utanríkisráðherrann segi sem svo: Ja, ég vil nú halda til haga að þetta er sjálfbært.

Málið gengur út á það að við erum með ákveðna víglínu, virðulegur forseti. Víglínan núna er um hvalveiðarnar. Það er hægt að veiða hval á sjálfbæran hátt þó að hvalur sé af skornum skammti annars staðar. Það sama á við um þorskinn. Þegar ég var umhverfisráðherra á sínum tíma varð ég talsvert oft vör við það á erlendum vettvangi að draga átti okkur inn í það að samþykkja að veiðar á þorski væru hættulegar af því að þorskurinn hrundi við Nýfundnaland og hann er hruninn í Eystrasaltinu líka. (Forseti hringir.) Víglínan liggur þarna og við eigum ekki að gefast upp við að útskýra fyrir heiminum að hægt er að veiða hér hval á sjálfbæran hátt eins og að hægt er að veiða hér þorsk á sjálfbæran hátt, virðulegur forseti.