135. löggjafarþing — 107. fundur,  23. maí 2008.

afstaða ríkisstjórnarinnar til hrefnuveiða.

[12:45]
Hlusta

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Það er magnað að á meðan sögur um hvalveiðar Íslendinga í þessari viku fara um heimsbyggðina þá náðum við áfram í Júróvisjón. Þar talaði heimsbyggðin við okkur, eða hvað?

Ég er ánægður með að Samfylkingin í þessum mistökum sínum, sem ég tel vera, innan ríkisstjórnarinnar skuli þó viðurkenna forræði sjávarútvegsráðherra á þessum málaflokki. Það þýðir að sjávarútvegsráðherra þarf ekki að bera málið undir ríkisstjórn frekar gagnvart frekari veiðum. (Gripið fram í: Lögum samkvæmt.)

Vísindamenn okkar njóta mikillar virðingar um allan heim, sérstaklega þegar kemur að sjávarútvegi, alveg sérstaklega. Við skulum halda okkur við staðreyndir málsins. Hvalir éta um 6 milljónir tonna af sjávarfangi í kringum landið. Hrefna étur þar af um eina milljón af fiskmeti, að þeirra mati. Þeir færa mjög ábyggileg og sterk rök fyrir því að langtímaafrakstur þorskstofnsins miðað við að hrefnustofninn verði í fullri stærð en ekki í sjálfbærri nýtingarstærð, 70% af upphaflegri stofnstærð, þá minnki afrakstursgeta þorskstofnsins um 20%, heil 20%. Hámarksafrakstursgeta þorskstofnsins getur orðið 300 þúsund tonn samkvæmt niðurstöðum vísindamanna okkar. Það eru 60 þúsund tonn, virðulegi forseti, af þorski. Svo tala menn hér um meiri hagsmuni fyrir minni. Ég bara krefst þess að í þeirri umræðu leggi menn tölur á borðið. Þær liggja fyrir gagnvart fiskinum. Þar eru ekki talin þau verðmæti sem liggja í útflutningi hvalaafurða í framtíðinni vegna þess að þau geta orðið umtalsverð, milljarðar á ári þegar hvalveiðar verða orðin hér alvöru atvinnugrein aftur.

Þau halda ekki þessi rök um ferðaþjónustu sem hóf upp hérna kvartanir sínar árið 2003 og hefur var talað með sama tón öll árin og allt hefur átt að fara hér fjandans til. Hvað hefur gengið eftir af þessum skoðunum? Það hefur ekkert gengið eftir. (Forseti hringir.) Þjóðin hefur líka talað ítrekað í þessu máli, nú síðast í skoðanakönnun þar sem 70% fylgi er með hvalveiðum Íslendinga. (Forseti hringir.)

Margir halda því til haga að það sé ekki hægt að selja afurðirnar. (Forseti hringir.) Ég er mjög sáttur við að við látum viðskiptamómentið ráða í þessu í framtíðinni vegna þess að ef það verður ekki hægt að selja hvalaafurðir (Forseti hringir.) í framtíðinni, virðulegi forseti, þá verða engar veiðar hér. Við þurfum ekki að hafa áhyggjur af því.