135. löggjafarþing — 107. fundur,  23. maí 2008.

afstaða ríkisstjórnarinnar til hrefnuveiða.

[12:48]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Það verður því miður að segjast að okkur hafa verið nokkuð mislagðar hendur varðandi það að halda á fullveldisrétti okkar sem við að sjálfsögðu viljum halda til haga til að stjórna nýtingu nytjastofna innan sérefnahagslögsögunnar að teknu tilliti til að sjálfsögðu alþjóðalaga eins og okkur er skylt að gera þegar hvalir eiga í hlut en samkvæmt alþjóðahafréttarsamningnum eru þjóðir skuldbundnar til þess að vinna saman að rannsóknum og nýtingu á þeim tegundum.

Það var misráðið á sínum tíma að hefja atvinnuveiðar á hval, sérstaklega á stórhval eins og ákveðið var, og vel að merkja: Hvar er kjötið? Hv. þm. Jón Gunnarsson, hvar er kjötið? (JónG: Hefur þú áhyggjur af því?) Það væri kannski gott fyrir þjóðina að vita það vegna þess (Gripið fram í.) að það skiptir máli — og þar er ég orðinn mjög ósammála mörgum sem hér hafa talað um að þetta sé eitthvert smámál — það skiptir miklu máli hvernig staðið er að máli af þessu tagi, að það sé gert af fagmennsku og yfirvegað og að orðstír landsins sé ekki skaðaður að óþörfu. Auðvitað er þetta rugl í ríkisstjórninni til háborinnar skammar í viðkvæmu máli af þessu tagi og ömurlegt að horfa á Samfylkinguna fara í þennan kattarþvott til þess að reyna að fría sig ábyrgð af tilteknum gerðum ríkisstjórnarinnar sem hún situr í og ber fulla pólitíska ábyrgð á með þingmeirihluta sínum á Alþingi og ekki orð um það meir. Ég vona að Samfylkingin átti sig á því að þetta er henni sjálfri til háðungar og skammar.

Hæstv. iðnaðarráðherra orðaði það þannig að landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra hefði farið út af sporinu. Bíddu, eru ráðherrar í ríkisstjórninni farnir að tala um sjálfa sig eða ríkisstjórnina í heild þannig að hún sé eins og járnbrautarlest sem er gengin af teinunum? Hvert fara þær og hvernig fer fyrir þeim? Ég held að menn ættu aðeins að gæta að sér. Ég undrast satt best að segja geðleysi hæstv. forsætisráðherra. Hann afgreiðir málið hér með því að þetta sé ekki kabinet-spursmál. Um daginn sagði hann að það stæði ekkert um þetta í stjórnarsáttmálanum og þess vegna mættu menn vera ósammála. Ég meina, hvernig ætlar hæstv. forsætisráðherra að hafa þetta framvegis í sinni eigin ríkisstjórn?