135. löggjafarþing — 107. fundur,  23. maí 2008.

afstaða ríkisstjórnarinnar til hrefnuveiða.

[12:53]
Hlusta

Grétar Mar Jónsson (Fl):

Frú forseti. Þetta er sennilega í fyrsta og síðasta skipti sem ég hæli hæstv. sjávarútvegsráðherra því að hann hefur ekki gefið tilefni til þess í gegnum tíðina að honum sé hælt með einum eða öðrum hætti og sérstaklega ekki þegar kemur að áliti mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna sem hann og ríkisstjórnin virðast ætla að hunsa algjörlega eða alla vega fáum við hér í þinginu ekki að vita neitt hvað sé í gangi hvað það varðar.

Ég hef haldið því fram að við ættum að veiða hvali og nýta lífríki hafsins frá síli og loðnu upp í stórhveli og vona að við verðum farnir að veiða stórhveli áður en langt um líður. Með tilliti til lífríkisins í hafinu er nauðsynlegt að halda þar jafnvægi með því að nýta alla stofna. Hér hafa menn tíundað það hvað hvalur er að éta og hvaða áhrif hann hefur á lífríkið. Þess vegna er sjálfsagt að við nýtum það.

Það er líka sjálfsagt að við tökum tillit til hvalaskoðunarfyrirtækja og búum til ramma utan um ákveðin svæði þar sem þeir fara í hvalaskoðunarferðir. Það er ekkert að því að setja tíu mílna radíus frá Gróttu sem væri friðaður eða tíu sjómílna radíus frá Garðskaga, loka jafnvel flóum og fjörðum að einhverju leyti fyrir hvalaskoðunarfyrirtæki. Það er ekki það sem hefur áhrif á veiðar á hrefnu að neinu gagni.

Það er náttúrlega ekki hægt að koma hérna upp og minnast á hvað þetta er nú hryllilega hallærislegt fyrir þessa blessuðu ríkisstjórn þegar sex ráðherrar Samfylkingarinnar lýsa því yfir að þeir séu á móti því sem sex ráðherrar Sjálfstæðisflokksins eru að gera í ríkisstjórn.