135. löggjafarþing — 107. fundur,  23. maí 2008.

afstaða ríkisstjórnarinnar til hrefnuveiða.

[12:55]
Hlusta

Guðni Ágústsson (F):

Hæstv. forseti. Það er alveg rétt að hvalveiðar eru umdeildar og verða umdeildar. Þorskveiðar geta líka átt eftir að verða umdeildar. Það er í rauninni sorglegt að hlusta á hæstv. forsætisráðherra. „Óvenjulegt“ segir hann, „ekki stórmál, lítið mál, 40 hrefnur.“ Honum er alveg sama þó að önnur ríkisstjórnin sín sé með hvalhöfuð og hin hauslaus.

Hvalveiðar eru umdeildar og tvíhöfða ríkisstjórn er ekki góð ríkisstjórn og nú er fjallað í erlendum blöðum um þessa afstöðu ríkisstjórnarinnar og þennan klofning. Hláturinn bergmálar úr fjöllum heimsins yfir að svona skuli gerast í litlu lýðræðisríki þar sem þarf að taka erfiða ákvörðun. Mikið er skapleysi hæstv. forsætisráðherra. Ótrúverðugleiki í einu máli eltir okkur yfir í önnur mál. Mörg önnur mál munu í kjölfar þessa verða Íslandi og Íslendingum erfiðari á alþjóðavettvangi. Það mun verða sótt að okkur af meira miskunnarleysi í þessu máli af því að það er umdeilt vegna þess hvernig ríkisstjórnin hefur komið fram.

Ég spurði hæstv. forsætisráðherra spurninga. Hann svarar þeim ekki. Ég spyr enn og aftur hæstv. forsætisráðherra: Treystir forsætisráðherra hæstv. utanríkisráðherra Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur til þess að vera málsvari á stórum ráðstefnum úti í heimi eða á sínum ferðalögum til þess að verja rétt Íslendinga í auðlindinni við Ísland? Treystir hann henni sem málsvara í hrefnuveiðimálinu? Rennur hæstv. forsætisráðherra ekki í skap að hlusta á hvernig Samfylkingin talar hér í dag til hans flokks og þeirrar ákvörðunar sem meiri hluti alþingismanna stóð að?

Hátt í 40 þingmenn sögðu hér já við þessu. Aðeins sjö sögðu nei á sínum tíma. (Forseti hringir.) (Gripið fram í.) Þetta er því stórmál sem hér er til umræðu, hæstv. forsætisráðherra, og því miður hefur ríkisstjórn Íslands (Forseti hringir.) skaðast og íslenskir hagsmunir vegna klofningsins.