135. löggjafarþing — 107. fundur,  23. maí 2008.

framhaldsskólar.

286. mál
[15:33]
Hlusta

Frsm. meiri hluta menntmn. (Sigurður Kári Kristjánsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Málflutningur eins og þessi kemur umræðunni og málinu í þann farveg sem það því miður er komið í, rangfærslur og vitleysa, leyfi ég mér að segja. Ég hafna því sem fram kom í ræðu hv. þingmanns að í frumvarpinu felist einhver áform um styttingu eða skerðingu stúdentsprófsins. Ég hafna því alfarið. Það kemur fram í því nefndaráliti sem meiri hluti menntamálanefndar lagði frá sér og það kemur fram í frumvarpinu sjálfu.

Hér er verið að auka frelsi og draga úr miðstýringu. Verið er að styrkja og efla stúdentsprófið. Verið er að setja bóknám og verknám til jafns við hvort annað. Þetta er það sem við erum að gera.

Við viljum styrkja og efla stúdentsprófið og út á það gengur þessi vinna. Við viljum berjast gegn miðstýringu. Við viljum auka frelsið. Það er vegna þess að við treystum skólunum. Það gerir hins vegar hv. (Forseti hringir.) þingmaður greinilega ekki heldur vill ráðskast með alla hluti sjálf en ekki leyfa skólasamfélaginu sjálfu að móta sitt (Forseti hringir.) nám og námsleiðir.