135. löggjafarþing — 107. fundur,  23. maí 2008.

framhaldsskólar.

286. mál
[15:35]
Hlusta

Frsm. meiri hluta menntmn. (Sigurður Kári Kristjánsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Skólarnir treysta okkur. Þrátt fyrir að fram hafi komið ályktanir sem hv. þingmaður nefndi þá hvet ég hana til að lesa þær ályktanir vegna þess að í þeim er tekið undir margt af því sem fram kemur í frumvarpinu. Það er alveg á kristaltæru.

En það er dálítið pirrandi að hlusta á málflutning þingmanna stjórnarandstöðunnar í málinu sem koma hingað inn í umræðuna undir því yfirskini að þeir séu að verja stúdentsprófið, verja stúdentsprófið eins og það er. Og látið er að því liggja að í frumvarpinu sé verið að fara aðra leið en gert er í núgildandi lögum. Þar er ekki talað um einingar.

En það sem mig langar til að spyrja um fyrst hv. þingmenn telja sig vera að verja núverandi stúdentspróf: Hvaða stúdentspróf eru þeir að verja? Er það stúdentsprófið sem Hraðbraut býður upp á sem er tveggja ára námsleið? Er það stúdentsprófið sem Verslunarskóli Íslands býður upp á sem tekur fjögur ár? Er það stúdentsprófið sem framhaldsskólarnir bjóða upp, (Forseti hringir.) þ.e. fjölbrautaskólarnir sem eru þrjú eða fimm ár? Um hvaða stúdentspróf erum við að ræða? Það er nefnilega þannig að þau eru margs konar.