135. löggjafarþing — 107. fundur,  23. maí 2008.

framhaldsskólar.

286. mál
[15:37]
Hlusta

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar að spyrja hv. þingmann vegna þess sem hún taldi að 23. gr. og 21. gr. frumvarpsins einkenndist af miðstýringu. Það stendur hér, með leyfi forseta: „… ef frumvarpið verður að lögum mun menntamálaráðuneytið einungis gefa út almennan hluta aðalnámskrár, sbr. 21. gr. frumvarpsins. Hinn hluti aðalnámskrár byggist á námsbrautalýsingum skv. 23. gr. sem skólarnir setja og hlotið hafa staðfestingu ráðherra.“ Sem þýðir að hver framhaldsskóli mun setja sér skólanámskrá á grundvelli almenna hlutans sem síðan grundvallar svo aftur námsbrautalýsingar sínar á því.

Í lok þessarar greinar eða á blaðsíðu 3 í áliti meiri hlutans stendur, með leyfi forseta: „Heimild ráðherra til að gefa út viðmiðunarnámskrár skv. 5. mgr. helgast af því að það kann að taka einstaka skóla einhvern tíma að byggja upp eigin námskrár eins og 1. mgr. 23. gr. gerir ráð fyrir að hver skóli geri.“

Mig langar að spyrja hv. þm. (Forseti hringir.) Kolbrúnu Halldórsdóttur, í hverju felst miðstýringin?