135. löggjafarþing — 107. fundur,  23. maí 2008.

framhaldsskólar.

286. mál
[16:07]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er alveg ljóst að í ræðu hv. þm. Einars Más Sigurðarsonar stóð þetta opna bréf Félags framhaldsskólakennara til þingmanna upp úr í þunganum af ræðuflutningnum. Það var það sem hv. þingmaður sagði að hann væri miður sín yfir og lagði mikinn þunga í það mál og reif það síðan og tætti niður og sagði að líklega væri ástæðan fyrir bréfinu sú að samskipti milli Félags framhaldsskólakennara og menntamálaráðuneytisins hefðu ekki verið eðlileg og því þyrfti að breyta.

Það er ekki bara Félag framhaldsskólakennara sem mótmælir þessari lagasetningu, það eru miklu fleiri. Það er listað upp í áliti minni hlutans, listaðir eru upp allir skólarnir sem hafa talað um að þeir vilji að málinu sé frestað til að ná sátt. Ég tel að hv. þingmaður geti ekki talað með þeim hætti sem hann gerði hér með neinni sanngirni. Hann ásakar minni hlutann um einhvern málflutning (Forseti hringir.) sem standist ekki. Við styðjumst við mótmæli sem send hafa verið hingað inn, virðulegur forseti.