135. löggjafarþing — 107. fundur,  23. maí 2008.

framhaldsskólar.

286. mál
[16:08]
Hlusta

Einar Már Sigurðarson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er rétt að álit minni hlutans er byggt algjörlega upp á því sem borist hefur til nefndarinnar og sumt af því átti við áður en meiri hlutinn gerði þann fjölda breytinga sem hann hefur gert og áður en nefndarálit meiri hlutans kom til skýringar á ýmsum þáttum. Ég vil því segja og fullyrða að í grundvallaratriðum er þetta algjör misskilningur og það er þess vegna raunverulega sorglegt að minni hlutinn í menntamálanefnd skuli halda áfram með þann misskilning sem búið er að gera ítrekaðar tilraunir til að leiðrétta.

Síðan vil ég, frú forseti, (HöskÞ: Þriggja ára misskilningur.) leiðrétta hv. þingmann vegna þess að sú málvenja sem ég hef a.m.k. kynnst er öðruvísi en hv. þingmaður notar. Hv. þingmaður fullyrti að allir skólarnir — ég átta mig ekkert á hvað hv. þingmaður er þar að fara. Ég sagði: Það eru kennarafélögin sem hafa nokkur verið að senda ályktanir, það eru félagar í sama félagi þannig að það er ekki eins og þetta sé einhver fjöldahreyfing úti um allt land. Þó svo að kennarafélög í einstökum skólum bendi á ákveðna hluti (Forseti hringir.) og séu sem betur fer í takt við forustu síns félags held ég að það sé ekki eins og heimurinn sé að farast.