135. löggjafarþing — 107. fundur,  23. maí 2008.

framhaldsskólar.

286. mál
[16:17]
Hlusta

Guðni Ágústsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér hefur aldrei dottið í hug í þinginu að reyna að ná sátt við hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur. Málið snýst ekki um það. Málið snýst um það að ekki hefur náðst sátt við framhaldsskólana um málið og kennarana. (Gripið fram í.) Það hefur ekki náðst sátt við það fólk og það er eins og hv. þingmaður ætli að virða það fólk einskis í umræðunni, segist vera blóð af þess blóði og brot af þess sál en svo ætlar hann bara að vaða yfir það fólk á skítugum skónum með Sjálfstæðisflokknum. Þetta fólk er bara að biðja um eitt, fyrst þetta er ágreiningur við okkur og allt skólakerfið, að fresta málinu til hausts. Það biður okkur um það. Það rignir yfir okkur tölvupósti alls staðar af landinu. Það þýðir ekkert að vera að rífast við vinstri græna um málið. Stjórnarmeirihlutinn í nefndinni gengur gegn viðhorfum fólks sem gersamlega þekkir þetta stig, hefur lesið það sem er að koma frá nefndinni og þekkir það og veit hvað það þýðir á eigin skinni.