135. löggjafarþing — 107. fundur,  23. maí 2008.

framhaldsskólar.

286. mál
[19:50]
Hlusta

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Við fjöllum hér um frumvarp til laga um framhaldsskóla og höfum fengið góða kynningu á nefndaráliti meiri hluta menntamálanefndar og jafnframt nefndaráliti minni hlutans í ræðum hér í dag. Þó að það hljóti að vera þannig þegar maður kemur svona seint inn í umræðuna að mikið verði um endurtekningar þá ætla ég að taka mér góðan tíma í að fara yfir frumvarpið frá mínum sjónarhóli, fara yfir hvernig það lítur við mér og hvaða afstöðu ég hef tekið eftir að hafa verið að vinna með þetta mál frá því á haustmánuðum.

Það er rétt í byrjun að rifja upp aðdragandann að gerð frumvarpsins. Strax í júní 2006 var skipuð nefnd til að endurskoða lögin frá 1996 og það gerðist í framhaldi af svokölluðu tíu punkta samkomulagi sem Kennarasambandið gerði samning um við menntamálaráðuneytið til þess að bæta skólastarf í landinu. Því skal ekki leynt að þessi vinna fór í gang eftir að verið hafði talsverð umræða um skólamál og gríðarleg óánægja út af blárri skýrslu sem lögð fram árið 2004 þar sem áform voru um að stytta nám til stúdentsprófs niður í þrjú ár. Ég skildi raunar aldrei af hverju menn töldu stúdentsprófið í árum vitandi það að mikill eða stór hluti þeirra nemenda sem ljúka stúdentsprófum frá framhaldsskólum landsins gera það úr áfangaskólum. Þar hefur verið mikill sveigjanleiki til að ljúka stúdentsprófum á mismunandi tíma, allt frá þremur og hálfu ári — jafnvel styttra — og upp í fimm, sex ár og jafnvel lengur.

Meðaltími stúdentsprófsins hefur sjálfsagt verið einhvers staðar á bilinu fimm til sex ár og það hefur oft verið rætt í skólasamfélaginu að full ástæða væri til þess að stytta það en ég skildi raunar aldrei af hverju var talað um þrjú ár.

Nefndin sem skipuð var 2006 fékk ákveðin verkefni. Þar voru sett markmið sem fjölluðu um að auka samfellu í skólastarfi og stuðla að bættum námsárangri, þ.e. meiri skilvirkni í skólastarfinu hvað nemendur varðar og reyna að koma því þannig fyrir að flestir ljúki skólagöngu með skilgreindum námslokum úr framhaldsskóla. Það var gert til að minnka brottfall úr skóla. Jafnframt var sett það markmið að allir nemendur ættu að eiga kost á námi við hæfi og að góð tengsl séu við aðliggjandi skólastig, þ.e. við grunnskólann og við háskólastigið. Marka átti skýrari leiðir fyrir nemendur til að stunda nám við hæfi og skapa skilyrði fyrir aukinn sveigjanleika í námi.

Þetta lagði nefndin af stað með. Í tíu punkta samkomulaginu voru settir í gagn margir starfshópar um starfsnám, fjar- og dreifnám, almenna námsbraut, sveigjanleika og fjölbreytileika í skipulagi náms og námsframboða og um náms- og starfsráðgjöf. Það er nú ekki víst að ég fari rétt með titlana á öllum en efnislega held ég að ég fari rétt með hvaða hópar voru skipaðir. Allir þessir hópar hafa skilað tillögum sem er gríðarlega gott efni í alla framhaldsskólaumræðuna og menntaumræðuna almennt í sambandi við framhaldsskólann. Það er fóður sem á eftir að nýtast í framhaldi af þeirri vinnu sem fylgir ef þetta frumvarp verður að lögum. Það er kannski upphafið að mikilli vinnu í íslenskum skólum frekar en búið sé að móta fast framhaldsskólastig með frumvarpinu sem hér er lagt fram.

Það skal tekið fram að þessi nefnd sem ég gat um og tók til starfa árið 2006 átti að ljúka störfum á síðasta ári. Nefndin lauk störfum án samkomulags. Framhaldsskólakennarar voru ósáttir við vinnuna í nefndinni og tóku ekki þátt í afgreiðslu á málinu á lokastigi og er leitt að þannig hafi málum lyktað. Þar er alls ekki við framhaldsskólakennara eina að sakast, það er ég fullviss um.

Málið kom svo til kasta ríkisstjórnarinnar og var skoðað þar. Gerðar voru þó nokkrar breytingar á því áður en það var lagt inn til þingflokkanna. Það kom svo þaðan inn í þingið í desember síðastliðnum.

Lögð var töluverð áhersla á að frumvarpið kæmi inn í þingið einmitt í desember þannig að hægt yrði að senda það til umsagna fyrir jól þannig að umsagnir bærust strax í janúar eða í byrjun febrúar. Nefndin hefði þá góðan tíma til að taka á móti þeim, fara yfir þær og eiga viðtöl við gesti. Auðvitað hefur þetta verið gríðarleg vinna og menntamálanefnd hefur unnið mjög gott starf við skoðun á þessu frumvarpi.

Þegar frumvarpið var lagt fram kom fram að megináherslurnar í þessu nýja frumvarpi eru m.a. að fræðsluskylda er lengd til 18 ára. Við getum skoðað það betur á eftir. Tekið er fram að stúdentsprófið verði óskert, það miðist við kröfur og væntingar nemenda, sveigjanleika og fjölgun námsleiða, sem er nánast heitið á einni af skýrslunni úr tíu punkta samkomulaginu sem nefnt var áður. Efla á ráðgjöf og stuðning og auka sérþjónustu í framhaldsskólum. Ákvæði er um framhaldsskólapróf sem byggt er á sérstökum námsbrautum. Markmiðið með frumvarpinu er að draga úr miðstýringu í námsframboði og námsgagnagerð, búa til sérstaka námsbraut í skóla sem byggi á styrkleika og sérstöðu. Það er beinlínis markmið frumvarpsins að reyna að auka möguleika skóla til þess að taka mið af séraðstæðum á landsvæðum eða áralangri reynslu eins og hér hefur verið nefnt. Skólar eins og Menntaskólinn á Akureyri, Menntaskólinn í Reykjavík og aðrir gætu þá unnið út frá sínum hefðum. Lögin mundu ekki ýta því til hliðar.

Ágreiningurinn við lagasetningu af þessu tagi er: Eiga lög um framhaldsskóla að vera rammi utan um eitthvert starf, áframhaldandi vinnu og leiðbeiningar um meginmarkmið? Með hvaða hætti á að standa að frekari vinnu í sambandi við framhaldsskólann? Á að fara út í ítarlegri löggjöf, setja strangari ákvæði, reyna að sjá fyrir hvaða möguleikar geta komið upp í sambandi við rekstur og starf skólanna og þrengja þannig rammann í byrjun?

Ég verð að viðurkenna að ég sagði á sínum tíma þegar grunnskólalögin voru orðin býsna ítarleg og aðalnámskráin var orðin 1100 blaðsíður að þetta væri út af fyrir sig ágætt fyrir okkur í grunnskólunum að fá slíka löggjöf og reglugerð sem aðalnámskráin væri. Það mætti þó ekki vera svo í mörg ár vegna þess að slík stýring ofan frá eyðilegði fullkomlega þá eiginleika sem við viljum að íslenskt skólakerfi hafi. Hún eyðilegði sveigjanleikann, fjölbreytileikann og möguleikana á því að bregðast við ólíkum aðstæðum á hverjum tíma.

Hafi nokkurn tíma verið ástæða til að skólakerfið væri sveigjanlegt og gæti brugðist við ólíkum aðstæðum þá held ég að það sé núna. Ég held að öllum sé augljóst að ef við ætlum að binda allt, hvort sem er í lög eða reglugerðir, útfært í einstökum atriðum þá lifir slík löggjöf í mjög skamman tíma.

Löggjöfin sem við höfum endurskoðað hér hefur að vísu gengið í gegnum ýmsar breytingar en hún er þrátt fyrir allt frá árinu 1996 þannig ekki er oft gripið til laganna. Ég held að það sé ágætt að við höfum í huga þegar við búum til lög af þessu tagi hversu þröng þau eiga að vera.

Fleiri hugmyndir sem komu fram með þessu frumvarpi, m.a. að mat á vinnu nemenda í öllu námi á framhaldsskólastigi, þar með talið í iðn- og verknámi, skuli vera gagnsætt og jafngilt stúdentsprófi á bóknámsbrautum.

Það var líka markmið frumvarpsins að taka á sveigjanleika á mörkum skólastiga, þ.e. á milli grunn- og framhaldsskóla og milli framhaldsskóla og háskólastigs og það er gert í frumvarpinu. Þó verður að taka fram varðandi grunnskólann að ákvæðin um þessi tengsl og skil grunnskóla upp í framhaldsskóla eru fyrst og fremst í grunnskólafrumvarpinu en ekki í framhaldsskólafrumvarpinu. Það vekur því athygli þegar menn tala um að það þurfi skýrari reglur í framhaldsskólalögunum þá hafa þeir kannski ekki skoðað það sem stendur í grunnskólalögunum um skil á milli skóla. Full ástæða var til að taka á hlutunum þar vegna þess að framhaldsskólarnir voru m.a. farnir að seilast eftir nemendum niður í grunnskólann. Nemendur voru farnir að hoppa jafnvel yfir 10. bekk án þess að skólastjóri gæti neitt haft um það að segja hvort viðkomandi hefði lokið hæfilegu námi. Á því er tekið í grunnskólalögunum og skýrt betur út. Eftir sem áður á eftir að útfæra — og það hefur verið að gerjast í gegnum tíðina — hvaða framhaldsskólaeiningar er hugsanlegt að taka á grunnskólastigi og hverjar ekki.

Það kemur líka fram í þessum meginhugmyndum frumvarpsins að skólar beri ábyrgð á vinnustaðanámi. Það er örlítil breyting á því. Það er ekki einstaklingurinn sem ber ábyrgð á því að finna sér vinnustað í verknáminu heldur er skólinn látinn bera þá ábyrgð og svo eru nánari útfærslur á því í frumvarpinu.

Það er talað um að gæði náms verði tryggð með því að efla innra og ytra mat á skólastarfi og með stuðningi við umbætur í skólastarfi. Þetta voru markmiðin sem lagt var af stað með og ef maður skoðar þau þá held ég að það hafi enginn ágreiningur í sjálfu sér verið um þetta. Það er enginn ágreiningur um þau markmið sem menn settu sér í byrjun. Ég held raunar ekki heldur að það sé neinn ágreiningur um það sem er í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar varðandi menntakerfi í fremstu röð sem ég ætla í sjálfu sér ekki að eyða tíma í að lesa. En það er þó yfirlýst markmið að allt menntakerfi þjóðarinnar frá leikskóla til háskóla verði í fremstu röð í heiminum. Það er nú ekki minna en það. Ég held að það sé enginn ágreiningur um þetta. Ég held að við eigum að muna það að þó að við séum að setja hér lög um öll skólastig þá er það ekki gert af illri neyð. Það er ekki gert vegna þess að hér sé eitthvert vandræðaástand á öllum skólastigum heldur einfaldlega vegna þess að við höfum sannfæringu fyrir því að við getum gert betur og kannski að mörgu leyti sáum við að breytingarnar hafa orðið mestar eða mjög miklar einmitt á framhaldsskólastiginu og það var kominn tími á að við reyndum að bregðast við, að bjóða upp á fjölbreyttari námsleiðir til þess að menn gætu verið með löggilt próf eða lokið einhverjum ákveðnum einingum á framhaldsskólastigi og væru ekki skilgreindir sem brottfallsnemendur jafnvel þó að þeir hafi lokið árum með fullum námsárangri. Þetta var markmiðið með lögunum í upphafi.

Þegar þetta frumvarp kom fram kom, eins og ég sagði áður, alveg fjöldinn allur af umsögnum og gestir komu. Veigamiklar umsagnir bárust meðal annars frá kennarasamtökunum sem höfðu yfirgefið málið nauðugir viljugir, þ.e. það var tekið úr höndunum á þeim fyrir áramótin og full ástæða er til þess að vera óánægðir með að það hefði verið með þeim hætti. Samtímis held ég að það hafi verið bara mikilvægt að málið kæmist inn í nefndina og hlyti þar umfjöllun. Við fengum minnisblað frá Félagi framhaldsskólakennara í janúar 2008. Það var um frumvarp til framhaldsskóla fyrir félagsdeildir. Þetta minnisblað er ég með og margt af þeim punktum sem birtast síðan í þeim yfirlýsingum sem komu frá formanni og varaformanni Félags framhaldsskólakennara núna nýlega — það var sent til allra þingmanna, frá þeim Aðalheiði Steingrímsdóttur formanni og Magnúsi Ingólfssyni, varaformanni Félags framhaldsskólakennara, Kennarasambands Íslands — þar sem þau fara yfir málið. Þetta eru nánast sömu atriðin. Þessir fulltrúar kennarasamtakanna telja að frumvarpið taki ekki með fullnægjandi hætti á þeim atriðum sem þarna voru í upphafi.

Ég ætla að leyfa mér að fara aðeins yfir þessi atriði, þ.e. hvort ég gæti stutt þetta frumvarp, hvort ég væri sáttur við þann árangur sem náðist með frumvarpinu, hvort mikið stæði út af. Ég verð að viðurkenna það þó að sjálfsagt hef ég verið með allt önnur gleraugu og ekki verið sammála Félagi framhaldsskólakennara um það hversu mikið ætti að binda í lög. Ég tel að lagaramminn eigi að vera mjög opinn. Ég treysti skólasamfélaginu miklu betur en níu manna menntamálanefnd þingsins þrátt fyrir gott samstarf við ýmsa aðila og þrátt fyrir góðan vilja okkar allra sem í nefndinni eru. Ég tel að skólasamfélagið sé miklu betra í að sjá fyrir ýmsa möguleika, ýmis tækifæri og geta brugðist við, fundið nýjar leiðir eftir ólíkum staðháttum í landinu og þess vegna horfði ég ekki eins til þess að við lokuðum hverju einasta atriði til enda, reyndum að negla það inn í löggjöf, enda fannst mér sú krafa oft mótast af því að gamlir draugar væru í farteskinu frá því 2004, frá þessari bláu skýrslu, tortryggni sem varð fyrir tíu punkta samkomulagið á milli Félags framhaldsskólakennara og ráðuneytisins. Mér finnst þessir draugar koma alltaf aftur og aftur og það er erfitt í nefndarstarfi og löggjöf árið 2008 að svara fyrir þetta. Um þetta var rætt hér í upphafi umræðunnar um frumvarpið þegar hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir notaði bláu skýrsluna meira og minna sem umræðugrunn í sambandi við endanlegt nefndarálit frá 1. til 2. umr. hér í þinginu.

Ég ætla að fara aðeins yfir þessi atriði og ég ætla að taka það fram að athugasemdir Félags framhaldsskólakennara, bæði sem sendar voru í janúar og þær þar sem þeir mæla með að menn seinki frumvarpinu, þ.e. allar þessar athugasemdir eru afar mikilvægar í umræðunni um framhaldsskólann. Í þessu er fullt af hugmyndum og margt af því sem þar er tel ég að eigi fullt erindi í áframhaldandi vinnu og útfærslu úti í skólunum og að þess sé að gæta, bæði í sambandi við vinnu við aðalnámskrár og í sambandi við skólanámskrár sem er krafa á um í frumvarpinu, að þetta komi þar aftur og að þeim hugmyndum sem þarna eru verði haldið vakandi þó að ég hafi ekki talið að þetta ætti erindi í lagafrumvarpið um framhaldsskóla, frumvarp eða lög sem giltu þá um alla framhaldsskóla í landinu hvort sem þeir væru á smærri stöðum úti á landi, hvort sem það væri dreif- og fjarnámsskólinn á Patreksfirði sem sækir inn í Grundarfjörð, Fjölbrautaskóli Vesturlands á Akranesi eða Menntaskólinn í Reykjavík.

Athugasemdin sem kom í upphafi var að frumvarpið byggði því miður aðeins að hluta til á tíu punkta samkomulaginu og vantar þar í að nýta álit — það kom fram — nefnda um náms- og starfsráðgjöf og fjar- og dreifnám. Ég get alveg tekið undir það að því fer fjarri að teknar séu inn allar hugmyndir sem hafa komið í þessum mörgu skýrslum sem ég nefndi áðan. Þær skýrslur liggja fyrir. Hluti af því er birt hér sem fylgiskjöl hjá áliti minni hlutans, mjög margir góðir punktar. Ef við tökum til dæmis náms- og starfsráðgjöfina þá er óskað eftir því í þessari skýrslu að hún verði efld. Það er augljóslega og mjög vel tekið á því í frumvarpinu.

Það er líka talað um skilgreininguna á því hvaða menntun þarf að liggja að baki því að vera með náms- og starfsráðgjöf. Það er einnig gert. Það er gert inni í lagatextanum. En það er líka gert í skýringum því þegar talað er um náms- og starfsráðgjöf og þá menntun sem þeir ráðgjafar þurfa að hafa þá er skýrt þar að verið sé að tala um háskólanám eða háskólagráðu í þessum fræðum. Það sem ekki kemur inn til dæmis — það eru auðvitað fleiri atriði — það er að ekki er sett nemendafjöldaviðmið á bak við fullt starf náms- og starfsráðgjafa. Það er hvergi gert. Það er ekki fjallað um hópstærðir í þessum reglum. Það er ekki fjallað um hversu margir þurfa að vera til þess að það sé ráðið í þessi og hin störf í skólanum, hvað þarf til þess að ráða í bókasafn og svo framvegis. Það er ekki gert með náms- og starfsráðgjöfina. En það er í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar að það eigi að efla náms- og starfsráðgjöf. Það er í frumvarpinu sérstaklega í texta. Ég á því afar erfitt með að sætta mig við að þannig sé litið á að þessu hafi ekkert verið sinnt. En því er augljóslega ekki öllu sinnt og það segir sig sjálft því að skýrslan um náms- og starfsráðgjöf er upp á margar blaðsíður.

Varðandi fjar- og dreifnámið — við komum nú betur að þessu síðar — ef ég fer í gegnum einstaka punkta þá gildir það sama. Að að hluta til er það komið inn í frumvarpið. Fyrsti punkturinn sem var nefndur fyrir utan þetta almennt um að tíu punkta samkomulagið væri ekki notað að fullu, var um tengsl á milli skólastiga. Þar er ég búinn að koma inn á að það var talað um óskýra inntöku frá grunnskóla. Það er viðfangsefni sem hefur verið töluvert í umræðunni á undanförnum árum og fyrst og fremst er tekið á því í grunnskólafrumvarpinu, þ.e. að skólalok þar skuli vera þannig að skólastjóri útskrifar nemendur og ætli menn að fara upp á framhaldsskólastigið með skírteini úr grunnskóla þá þurfi því að vera lokið formlega í grunnskólanum. Það er hægt að flýta námi þar. En ákvæðið er miklu skýrara en það var áður og það er tekið að verulegu leyti á þeim vandamálum sem höfðu komið upp á undanförnum árum á milli þessara skólastiga.

Eftir sem áður eru auðvitað ýmis álitamál, til dæmis að hve miklu leyti grunnskóli geti tekið að sér að kenna framhaldsskólaeiningar, hver eigi að fjalla um það. Ég verð að segja það bara hreinskilnislega hafandi verið grunnskólastjóri í 25 ár og tekið þátt í þessum breytingum á undanförnum árum að ekki treysti ég mér til þess að setja þetta inn í lagatexta hér. Mér finnst miklu betra að menn byggi á reynslu á ólíkum stöðum. Við höfum fylgst með því hvernig Garðabæjarskólarnir þar sem gagnfræðaskólinn eða unglingastigið var í sama húsi og fjölbrautaskólinn höfðu leyst þetta til margra ára sameiginlega og það er hægt að finna um það mörg dæmi, meðal annars á Akranesi þar sem meira að segja tveir grunnskólar leysa þetta með mjög ólíkum hætti. Náttúrufræðin í til dæmis 10. bekk þar er kennd í fjölbrautaskólanum fyrir annan skólann. Það er sem sagt verið að kenna framhaldsskólaeiningar í fjölbrautaskólanum fyrir 10. bekkjar nemendur á sama tíma og þeir eru að ljúka grunnskólaprófi. Sama gildir um gamla skólann minn sem var með kennara sem kenndi framhaldsskólaeiningar í samstarfi við fjölbrautaskólann.

Það eru ýmsar aðferðir í þessu. Það sem eftir stendur og það sem skiptir öllu máli og er það sem mér finnst að við eigum að verja og það er gert hér í öllum okkar yfirlýsingum, er að innihaldið verði ekki rýrt, að við förum ekki skemmri skírnir þó að við finnum svona lausnir. Við eigum að hugsa þetta alltaf út frá nemandanum, hvað passi honum. Nemandi sem stendur sig vel getur farið hraðar. Hann þarf ekki að yfirgefa grunnskólann. Hann getur verið að vinna að framhaldsskólaeiningum á sama tíma. Ætlum við að segja honum að hann eigi að vera í fjögur ár á framhaldsskólastiginu? Fyrir mig meikar það ekki neinn sens, svo að ég noti góða íslensku. Það er bara raunar alveg útilokað að tala þannig. Þess vegna sagði ég að þessi hugmynd um þrjú ár var galin á sínum tíma því að skólasamfélagið var löngu búið að breyta sér þannig að við getum ekki talað um kennsluna í árum.

Það er talað um minni miðstýringu og námsframboð. Kennarasamtökin báðu um, í athugasemdum sínum í janúar og endurtaka það núna, betri ramma um skyldur stjórnvalda, þ.e. hvers sé ætlast til af þeim um réttindi, nemendur, um starfsaðstæður og það er talað um fjárveitingar. Hér er búið að ræða áður um fjárveitingar. Það kemur auðvitað aldrei inn í svona lög. Það er hægt að setja það í einstakar greinar að útvega skuli peninga. Það er bara yfirleitt ekki gert og ég hélt að menn vissu það að fjárlögin eru því miður sett yfir öll lög þannig að það er alltaf háð þeim fyrirvara að það séu útvegaðir nægir peningar og það höfum við búið við í mörg ár, eins og í framhaldsskólanum, alveg frá 1996 og gengið hefur á ýmsu í gegnum þessi reiknilíkön. Það er ekkert fjallað um reiknilíkanið í framhaldsskólafrumvarpinu enda á það ekkert þar heima. Það er framkvæmdaratriði sem þarf auðvitað að skoða á hverjum tíma og er meingallað að mínu mati. En það á að mæla það sem frumvarpið setur fyrir og við eigum ekki að vera að útlista það hér nákvæmlega. Ég kalla ekki eftir fleiri hlutum þar en hérna eru. Ætlum við að skilgreina hvernig húsnæðið eigi að vera, upp á hvað eigi að bjóða á einstökum stöðum? Það hefur verið stungið upp á að setja inn bókasafn. Ég fékk tillögu um það og hafði ákveðna samúð með því. En hvar ætlum við að hætta? Þýðir það það þegar við förum í slíka upptalningu að það eigi þá að sleppa öllu öðru? Ég held að við getum alveg treyst áralangri hefð. Menn eru að búa skólana okkar mjög vel almennt séð og ég tel enga ástæðu til að útlista þetta nánar. Mér finnst leitt að það skuli vera gert tortryggilegt að menn séu ekki að tryggja að þetta verði í lagi.

Svo vil ég nefna einingakerfið sem er eiginlega stærsta viðfangsefnið í öllum athugasemdum. Ég skil þær athugasemdir að mörgu leyti mjög vel. Það er skipt þarna allt í einu um einingakerfi. Það er farið í svokallaðar ECTS-einingar og sótt inn í háskólaumhverfið. Ég get alveg tekið undir að það hafi svo sem ekki verið útfært nákvæmlega af hverju og engar fyrirmyndir eru erlendis frá. Það er nú þannig með íslenska skólakerfið að það sótti sér engar fyrirmyndir þegar við bjuggum til fjölbrautaskólakerfið á áttunda áratugnum. Þeir þróuðu það sjálfir og gerðu það með miklum glæsibrag. Það var að hluta til eyðilagt. Þar var hugmyndin sú að við hættum þessum stúdentshúfudraumum, sem ég kallaði svo á þeim tíma. Ég átti von á því að þegar fjölbrautaskólarnir voru starfræktir að þá mundi verða svipað vægi á útskrift hvort sem um væri að ræða iðn- og verknám eða stúdentspróf. En einhverra hluta vegna þróaðist það þannig að það varð áfram ákveðið misvægi og bóknáminu var alltaf gert heldur hærra undir höfði.

Ef ég aftur á móti sný þessu við, hvað mælir þá gegn því að við notum mælieiningarnar öðruvísi? Tímafjöldinn ræður einingafjöldanum í dag þegar við erum að tala um 140 einingar til stúdentsprófs. Það er ekki í lögum. Það er tekið fram. Það er ekki í lögum hvað margar einingar þarf til stúdentsprófs. Það er í aðalnámskrá. Það er í almenna hlutanum frá ráðuneytinu sem skilgreinir það. Aðalatriðið, það sem á að vera á bak við einingar í framhaldsskóla, er auðvitað inntakið og færnin eða kunnáttan. Það er sjónarmiðið út frá nemandanum. Þar hafa menn verið að reyna að nálgast það betur að skoða hvað nemendur kunna, hvaða færni þeir hafa. Getur maður farið hraðar í gegn ef maður hefur með einhverjum hætti aflað sér þekkingar annars staðar en í skóla? Ef slíkt er hægt að meta og ef hægt er að fara í gegnum það hvort það er í fjar- og dreifnámi eða í gegnum það að meta raunfærni viðkomandi þá finnst mér það sjálfsagt mál. Þetta er gert að hluta til fyrir til dæmis nemendur sem koma erlendis frá. Þeir geta farið í Menntaskólann við Hamrahlíð eða annað og tekið stöðupróf þar sem metin er kunnátta þeirra í tungumáli og þá hoppa þeir yfir og öðlast um leið ákveðnar einingar í tungumáli eða eitthvað slíkt. Það er verið að tala um slíka hluti, þ.e. að einhverjar einingar geti fylgt með. En ég taldi ekki ástæðu til að gera neinn ágreining um það hvort það væri nýtt einingakerfi eða ekki. En af því að verið er að ræða nýja hugsun í sambandi við það hvernig eigi að samlaga bóknám og iðn- og verknám þá tala menn einmitt um að fara þurfi í ákveðið aðlögunarferli. Þetta er ekkert einfalt mál. Með hvaða hætti tökum við þessar einingar? Hvernig búum við til umhverfið í því? Í lögunum er gert ráð fyrir þriggja ára aðlögun þar sem kennarasamtökin og skólasamfélagið eiga vinna með í aðlöguninni og það er tekið fram að það skuli ekki innleitt fyrr en það er tilbúið þannig að ekki verði um að ræða kapphlaup milli þeirra framhaldsskóla sem hafa mestan áhuga á því að búa til einingar sjálfir núna.

Ég er fyllilega sáttur við þessa leið. Þar með er lagaumhverfið tilbúið. Ekki eru sett mjög ströng fyrirmæli um hvernig eigi að gera þetta. Skólasamfélagið á að vinna úr því og ég treysti því til að gera þetta. Ég tel að það væri vitleysa að ætla að láta þingnefnd eða einhvern starfshóp hér fara að vinna að því að útfæra þetta. Ég treysti skólasamfélaginu miklu betur til þess.

Talað er um stúdentspróf og jafngildi bóknáms og verknáms og rætt um kjarna, 45 einingar miðað við þessar ECTS-einingar, sem eru í ensku, stærðfræði og íslensku. Þarna er verið að minnka kjarnann til þess fyrst og fremst að auka svigrúmið fyrir verknám og iðnnám og það er ein af ástæðunum fyrir því að ég hef sofið yfir þessum einingafjölda, hvort þær eigi að vera 240 til stúdentsprófs miðað við að hver önn sé 30 einingar. Það hlýtur að verða útfærsluatriði eftir skólum nákvæmlega hvað þeir ætla að setja inn í kjarnann. Tillögur koma frá Félagi framhaldsskólakennara um að tryggt verði að í öllu námi við útskrift verði færniþættir eins og móðurmál, erlend tungumál, stærðfræði, raungreinar, tjáning, samskipti, upplýsingatækni, samfélagsfræði, tengsl við umheiminn. Hve mikið verður eftir fyrir verknámið og iðnnámið ef við ætlum að gera þetta svona? Hver verður reyndin í því að stúdentsprófið verði jafngilt á bóknáms- og verknámsbrautum ef við ætlum að binda það að í öllum kjörnum fyrir framhaldið sé svona mikið inni?

Það er full ástæða til að ræða það. Ég treysti skólunum aftur til þess að búa þetta til og ég treysti háskólunum til að halda þeim skilyrðum enda hefur það komið fram í ályktunum frá þeim. Þeir munu auðvitað setja skilyrði um að stúdentsprófið standi undir kröfum. Ég treysti þeim miklu betur til þess að skilgreina námið enda er tekið sérstaklega fram að það eigi ekki að rýrast og að stúdentsprófið eigi að hafa það vægi að það gildi til náms á háskólabrautum.

Varðandi verk- og starfsnám og vinnustaðanám þá var einmitt rætt um vinnustaðasjóð og Kennarasambandið gerir þá athugasemd þar að það þurfi að skilgreina betur. En aftur kemur að því að það þýðir ekki að lofa þessu. Menn eru brenndir af því að oft er verið að setja svona í lög en ekkert er framkvæmt og minnt á fjármagn. Það er auðvitað þeirra hlutverk. Það er að minna okkur á að það þarf að borga þetta. En það er ekki alltaf sett í lög. Það væri undarlegt ef sett yrði í lög að hér ætti að standa: „enda komi fjármagn til frá ríkinu.“ Það segir sig sjálft. Þannig að það er bara vinna. Þetta er fín hvatning frá framhaldsskólakennurum. Þetta er fín hvatning í athugasemdunum sem komu til okkar og það verður þá verkefni í framhaldinu, ef frumvarpið verður að lögum, að tryggja nægt fjármagn.

Varðandi viðbótarnám, sem opnað er á í frumvarpinu, þar sem framhaldsskólar geta tekið að sér háskólaeiningar með líkum hætti og grunnskólinn er að taka að sér framhaldsskólaeiningar, þá styður Félag framhaldsskólakennara þá hugmynd en óskar eftir að þetta verði skýrt betur. Aftur kem ég að því að þarna hafa menn verið að þróa þetta á milli háskólanna og hlutaðeigandi framhaldsskóla. Ég treysti þeim betur til þess en að við förum að setja mjög þröngan lagaramma um hvernig þetta eigi að vera enda ætlumst við til að því meginmarkmiði sé fylgt að ekki sé verið að rýra kröfur. Það þarf staðfestingu á öllum einingum og áföngum. Til þess er apparatið sett, þ.e. þó það sé ráðuneytið þá ætlum við að það verði ekki slakað á kröfum. Ég tel það vera fullnægjandi í staðinn fyrir að reyna að vera klókur á því að búa til hvað megi taka þarna með.

Ég benti á það í upphafi ræðu minnar að það vantaði upp á að tillögur nefndarinnar um fjar- og dreifnám skiluðu sér betur varðandi gæða- og gjaldtökumál. Gæðamálin eru tryggð í frumvarpinu, það er hægt að skoða það ákvæði. Fjallað er um það að um fjar- og dreifnám skuli gilda sömu reglur varðandi mat og árangur. Það er auðvitað nýtt. Þetta er umhverfi sem þarf að ná tökum á. Hversu ítarlega á að fjalla um það veit ég ekki. Þarna er að vísu gjaldtökukafli sem er býsna flókinn þar sem talað er um að fyrir dreif- og fjarnám megi taka 10% af kostnaði við einstaka nemendur en þó í hlutfalli ef um er að ræða eina og eina grein. Þetta þýðir það að ef nemandi kostar 5 til 6 þús. kr. á ári megi fjar- og dreifnám í fullu námi yfir veturinn vera 50 til 60 þús. kr. og ef ein námsgrein er þá erum við að tala um eitthvað 5 til 6 þús. kr.

Vandamálið í þessu er það, og ég skal tjá mig hreinskilnislega um það, að gjaldtakan af þessu mætti fara út. Fjar- og dreifnám er ekki lengur þannig að maður þurfi að kosta til einhverjum lifandis ósköpum í stofnbúnað. Þetta er innbyggt í öll venjuleg tölvukerfi í dag þannig að ekki ætti að þurfa að vera með sérstakar gjaldtökur í þessu. Þetta verður þó að þróast, við verðum líka að átta okkur á því að þarna er um að ræða töluvert af því sem kemur inn í kvöldskólann, það er verið að bjóða þetta úti á landi. Ég held að við ættum að skoða þetta atriði betur, með hvaða hætti þetta verður gert, ef ekki við afgreiðslu á þessu frumvarpi þá fljótlega í framhaldinu. Ég held að við séum komin þarna í nýtt umhverfi og það eigi að vera þannig að skólinn, sem býður upp á námið, fái greitt fyrir þegar nemandi lýkur prófi eins og gert er í dag.

En þá verður að vísu að tryggja að ekki geti hver sem er skráð sig og hrokkið frá í miðju námi þannig að menn kosti mjög miklu til að setja námið í gang með nemandanum. Þess vegna gæti verið réttlætanlegt að vera með eitthvert tryggingagjald sem yrði endurgreitt ef viðkomandi lyki námi. Einfaldlega til þess að tryggja að viðkomandi fylgi því eftir. Því það er óþægilegt ef maður býður upp á fjarnám og er kominn með 100 nemendur að helmingurinn af þeim hætti eftir mánuð eða tvo eða jafnvel fyrr. Þetta er því ekki alveg einfalt varðandi gjaldtökuna sem við erum að ræða. Ég held að full ástæða sé til að skoða það en það er ljóst að þetta umhverfi er komið til að vera. Við tökum þátt í dreif- og fjarnámi á háskólastigi út um allan heim og við gerum þetta innan lands. Þetta er ein af lausnunum sem við sjáum varðandi dreifðu byggðirnar sums staðar. Við þurfum að sjálfsögðu að tryggja að nemendur geti stundað þetta nám og verði ekki látnir gjalda þess hvað þetta kostar mikið.

Varðandi námsmat, viðmiðunarpróf í kjarnagreinum, sem eru frjáls, og könnunarpróf í ýmsum greinum þá er gerð athugasemd frá Félagi framhaldsskólakennara um það að þetta sé óljóst og nærtækara að kanna kosti og galla rafrænna einstaklingsmiðaðra könnunarprófa. Þetta form hefur verið prófað í sambandi við enskupróf þegar maður er að sækja um skóla erlendis, t.d. TOFEL og fleiri slík úrræði. Ég held að áfram eigi að vinna að því, hvort sem er í grunn- eða framhaldsskóla, að þróa slík próf. Eftir sem áður held ég að það form sem er hér um mat sé bara í fínu lagi eins og það er þarna.

Nemendur, þjónusta, ráðgjöf. Skýrari ákvæði eru varðandi fatlaða, nemendur með námserfiðleika og með annað móðurmál en íslensku. Ákvæði er um heilsuvernd og hollustu og náms- og starfsráðgjöf. En aftur kemur athugasemdin. Það þarf að vera ítarlegra. Það þarf að segja meira. Það koma athugasemdir um að helst þyrfti matur í mötuneytum að vera niðurgreiddur o.s.frv. Allt eru þetta fínar ábendingar. En ég held að það sé fullstór pakki að ætla að taka þetta aftur inn í nánum útfærslum. Ég held að það væri ágætt ef skólarnir þróuðu með sér sjálfir ákveðna samkeppni um það hvað þeir geta boðið upp á og hvernig þeir koma þessu best fyrir.

Varðandi tillögur starfshóps náms- og starfsráðgjafar fór ég yfir það áðan. Það er búið að tryggja stöðu náms- og starfsráðgjafa og menntunarkröfuna inni í frumvarpinu en það er ekki búið að tryggja að svo og svo margir námsráðgjafar séu miðað við nemendafjölda enda er það hvergi gert í sambandi við önnur störf í skólunum. Ég treysti mér ekki til að berjast fyrir því að það sé sett þarna inn sérstaklega.

Það er hægt að taka fleiri svona dæmi. Við getum tekið fræðsluskylduna. Það hefur verið fjallað töluvert um hana. Hvað felur hún í sér? Það er fyrst og fremst réttur á námi, skýring á réttarbót. Það mætti sjá fyrir sér að útfæra þyrfti það betur. Þar kemur aftur á móti mjög merkileg athugasemd eða ábending um að menn eigi rétt á námi í grennd við heimili sitt og sérstaklega er horft á suðvesturhornið. Það er sem sagt að einhverju leyti verið að horfa til baka til hverfaskóla.

Í sjálfu sér hefði sú hugmynd verið í lagi ef menn hefðu þá byggt upp framhaldsskólana á höfuðborgarsvæðinu með það í huga. En ég held að það sé útilokað, og það hefur verið með Kvennaskólann og Menntaskólann, nema þá að gera kröfu um að þessir skólar breytist mjög verulega ef vesturbæingar allir eiga að hafa forgang upp á 80%, eða eitthvað slíkt, um að fá að fara inn í skólann. Ég held því miður að við séum búin að missa af lestinni með þessa stýringu inn í skólana. Og ég held að það sé ágætisþróun sem hefur orðið á þessu með sameiginlegri innritun. Það getur á einhverju augnabliki þurft að fara í einhverja frekari stýringu ef menn móta hér einhverja elítuskóla. En á sama tíma og við ætlum að auka sveigjanleikann, fjölbreytnina og ætlum að leyfa skólum að taka mið af sérþörfum og kunnáttu þá lendum við í mótsögn. Ég hef því ekki gert tillögu um að breyta þessu.

Varðandi framhaldsskólaprófið þá er það skilgreint sem 90–120 einingar í þessum áföngum og það á eftir að útfæra það. Það er rétt og þar er aftur verið að vísa í skólana. Þeir eru færastir um að prófa það. Ég hlakka til að sjá að það komi einmitt fjölbreytt framhaldsskólapróf út úr þessum hluta. Að við sjáum ólíkar nálganir og mikla hugmyndaauðgi í sambandi við það hvernig við reynum að hindra brottfall og þjónusta betur þá sem eru í skyldunáminu 16 til 18 ára.

Varðandi gjaldtöku og námskostnað þá kom það nú frá skólameisturum að þeir vildu hafa innritunargjald til að hafa „system i galskapet“ eins og það heitir, að það fylgi því ákveðin staða að innrita sig í skólann. Það er tekið sérstaklega fram núna að það verði að vera raunkostnaður, það er kæranlegt ef menn eru að reyna að seilast inn í einhverjar gjaldtökur í sambandi við skólagjöld í tengslum við innritunargjöld.

Varðandi efnisgjöldin þá er hugmyndin fyrst og fremst sótt inn í grunnskólana af því það er nú verið að vitna svolítið í það hér í umræðunni að það væri hugmyndin að sækja meira til grunnskólalaganna. Það er einmitt sótt um að efnisgjöld verði felld niður í öllu skyldunámi í framhaldsskólunum. Heimilt er að taka gjald fyrir valkvæð verkefni og þá erum við að tala um, eins og ég nefndi nú einhvers staðar hér í kynningu í upphafi, hátalara eða einhverja stærri hluti sem maður fær að fara með með sér út úr skólanum, maður tekur þátt í eða leggur þar til efni, eignast hlutinn. Það má rukka fyrir það. En ekki fyrir neinn skylduáfanga í náminu. Þetta er miklu skýrara en það var áður.

Það má taka gjöld fyrir kennslu utan hefðbundins starfstíma, það er óbreytt frá því sem nú er. Það er þarna ákvæði um fjar- og dreifnám sem ég hefði viljað sjá breytast. Og það er tilgreint að það eigi að setja fjárhæð varðandi greiðslu námsgagna. Við höfum rætt það áður hér í þinginu. Það eru ákveðin vandkvæði við það. Það er hægt að fara þessa grunnskólaleið, þar fylgir hverjum nemanda ákveðin upphæð og það er það sem skólinn fær. Síðan leggja sveitarfélögin að vísu oft til eitthvað til viðbótar en þar er talað um 4 til 6 þús. kr. Ég hefði talið að á framhaldsskólastigi væri lágmarkið 10 til 15 þús. kr., það væri það sem skólinn hefði. En það er ekki búið að útfæra þessa hugmynd og þess vegna er það klárt að bent er á það að þarna verður auðvitað að leggja til fjárveitingar sem miðast við að verða notaðar í þetta. Það er ekki fullt skref í það að öll námsgögn verði ókeypis, það er alveg á hreinu. En það skref eigum við eftir að klára seinna.

Um mat á skólastarfi er ítarlegur kafli sem fjallar bæði um ytra og innra mat. Ábendingar hafa komið um það, sem þarf þá að fara í skólanámskrá skólanna, að slíkt mat sé opinbert, liggi á netinu þannig að foreldrar og nemendur geta skoðað þann árangur sem mældur er.

Varðandi fundina þá er búið að gera ágætlega grein fyrir því. Hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir fór yfir ákvæðin um kennarafundina. Merkilegt nokk miðað við það að menn kveinka sér mjög undan reglugerðarfarganinu í frumvarpinu, og oft er það nú með réttu að menn vilja gjarnan hafa lögin þannig að ekki þurfi að hafa mjög mikið af reglugerðum. Það var sérlega skemmtilegt að heyra það frá fyrrverandi heilbrigðisráðherra, sem hér talaði á undan mér, því að ég held að fá lög hafi verið með meira af reglugerðum en heilbrigðisfrumvarpið sem samþykkt var fyrir rúmu ári síðan. En þannig er þetta. En það þýðir ekki að illa sé farið með reglugerðarvaldið. En þarna er beðið um að sett verði reglugerð um kennarafundi. Ég held að það sé allt í lagi að það yrði gert. En það er að vísu ekki lagaheimild sérstaklega fyrir því. En menn geta sett þessar reglur beint upp úr núverandi reglugerð, hver skóli fyrir sig. Ég treysti þeim fyllilega til þess án þess að það komi eitthvert lagaákvæði um það.

Að vísu gætir í mörgum af athugasemdunum, og það er auðvitað leitt til þess að horfa stundum og það er svo sem ekki endilega að ástæðulausu, ákveðinnar tortryggni út í það með hvaða hætti skólameistarar fari með vald sitt. Þeir gætu hugsanlega gert eitthvað með einhverjum ákveðnum hætti en ég held að lög geti nú ekki séð fyrir allt í sambandi við það.

Varðandi skólanefndirnar þá var ákvæðinu breytt þannig að kennarafundur kýs beint áheyrnarfulltrúa inn í skólanefndirnar þannig að komið var til móts við kröfurnar þar. Varðandi námsorlof og annað þá var athugasemd við það að fengin væri umsögn skólameistara um námsorlof. Þar kemur athugasemd kennarasamfélagsins um að það þurfi þá að vera eingöngu til þess að fylgjast með því hverjir sækja um því það eru ákveðnar reglur sem hafa gilt um þetta og ég treysti að þannig verði áfram.

Tími minn er að renna út. Þetta er auðvitað stórt mál. Það eru ýmsar aðrar breytingar sem koma inn sem ekki tengjast þessum athugasemdum frá Félagi framhaldsskólakennara. Ég valdi bara að taka það upp vegna þess að ég harma mjög að við skulum vera að fara að setja þessi lög í miklum ágreiningi. Ég hef þó fulla sannfæringu fyrir því, búinn að vera í miklu samstarfi við fulltrúa frá framhaldsskólakennurum, að við séum ekki að brjóta á þeim. Hér sé fyrst og fremst verið að merkja sér hvaða hlutum þurfi að fylgja vel eftir í framhaldinu. Það væri verri lausn fyrir skólasamfélagið að við frestuðum þessu vegna þess að, eins og hér hefur komið fram, það eru ákvæði um verulegar fjárveitingar sem fylgja slíku frumvarpi, ekki vegna þess að það séu loforð um fjárveitingar heldur einfaldlega að ef við ætlum að framkvæma þetta þá kostar það meira. Það er bara þannig.

Það er talað um 1,3–1,7 milljarða. Og ég held að það sé gott fyrir framhaldsskólann að fá þetta verkefni sem fyrst og við fáum auknar fjárveitingar inn í þetta kerfi. Ef við frestum þessu þá frestast það um eitt ár og þar með fjáveitingarnar að sjálfsögðu vegna þess að rökin á bak við þær eru lögin. Þó að menn geti séð að það vantar peninga víða inn í þá er engin trygging fyrir því að það komi af sjálfu sér þó það verði auðvitað hægt.

Varðandi stúdentsprófið þá bendi ég mönnum á að lesa mjög þann kafla þar sem stendur skýrum stöfum að stúdentsprófið hafi áfram þá stöðu að veita almennt aðgang að háskólanámi o.s.frv. Það er talið upp setningu eftir setningu í nefndarálitinu. En það er ekki sett inn í einingarnar einfaldlega vegna þess að það geta verið næg rök þegar menn þróa það kerfi að það eigi ekki að vera fast inni í lögunum heldur sveigjanleiki til þess.

Ég ætla að vona að við náum fullri sátt um að efla framhaldsskólann. Hann á það skilið. Enginn ágreiningur er um það að við viljum framhaldsskóla í fremstu röð, á heimsklassa. Það er verkefni okkar sameiginlega. Ég hef þá sannfæringu einlæglega, og er ekki kúgaður af Sjálfstæðisflokknum til þess að (Forseti hringir.) sæta einhverju þar, að frumvarpið eins og að liggur fyrir sé mjög til bóta og skólasamfélagið sé fullburðugt til að taka við því svona og gera góða hluti í framhaldinu.