135. löggjafarþing — 107. fundur,  23. maí 2008.

framhaldsskólar.

286. mál
[20:42]
Hlusta

Bjarni Harðarson (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka fyrir greinargóð svör rétt eins og ræðu hv. þingmanns sem var um margt greinargóð og fróðleg. En hér hefur það verið staðfest með svari hv. þm. Guðbjarts Hannessonar sem ég vék að í ræðu minni fyrr í dag að Samfylkingin hefur opnað kokið svolítið vel við samþykkt þessara laga því að hv. þingmaður hefur staðfest hér að þetta frumvarp sé ekki eins og Samfylkingin hefði viljað hafa það og það er gott að vita af því. Það er ágætt að fá það inn í umræðuna og ég þakka fyrir það.

Hitt get ég aftur á móti ekki talið eins greinargott svar, að það verði á hreinu að stúdentsprófið verði gilt til inngöngu í háskóla. Það liggur ekkert fyrir um það, og núna er staðan sú að stúdentsprófin eru þar ekki jafngild. Það væri full ástæða til að skerpa enn á þeirri mynd án þess að við förum þá leið að hafa samræmd stúdentspróf. Það er ákveðin varða á þeirri leið að hafa ákveðinn einingafjölda þó svo við förum ekki út í samræmd próf. Ég geri mér alveg grein fyrir að einingarnar eru ekki nákvæmlega þær sömu en það er töluvert meira samræmi en gefið er upp í þeim lagagrunni sem við núna stöndum frammi fyrir. Og það er gott að vita til þess, ég skil orð hv. þingmanns þannig, að það sé sú leið sem Samfylkingin hefði líka viljað fara og þá stöndum við enn frammi fyrir því að minni hluti þings er að keyra fram á kvöldfundi vilja sinn í blóra við kennarastéttina og í blóra við meiri hluta þings.