135. löggjafarþing — 107. fundur,  23. maí 2008.

framhaldsskólar.

286. mál
[20:44]
Hlusta

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta er í rauninni ekki svaravert. Það væri hægt að fara í málfundaræfingar og snúa út úr hver fyrir öðrum en ég ætla ekki að taka þátt í því. Og þetta með kokstærðina, hún er sjálfsagt misjöfn á fólki og flokkum og ég held að hv. þm. Bjarni Harðarson geti þá mælt hana og metið hvað hver er að gleypa.

Varðandi gjaldfrelsið, þá skýrði ég það ágætlega út. Ég orðaði það svo að ef við ættum að semja framhaldsskólafrumvarp með Framsóknarflokknum þá gerði ég ráð fyrir því, ef allir einstaklingar ættu að ráða hver fyrir sig, að við fengjum jafnmörg frumvörp og þingmennirnir eru. Þetta er auðvitað sameiginleg vinna og ég er mjög sáttur við þá vinnu. Ég hef sagt það og tek þátt í því og ber fulla ábyrgð á því. Ég tek þátt í að útfæra það með hvaða hætti við borgum námsgögn á framhaldsskólastigi og Bjarni Harðarson hefur sama vægi og ég. Ég sé að hv. þm. Jón Bjarnason er kominn í salinn líka og við þrír erum í fjárlaganefnd og það erum við sem ákveðum hvað framlag til námsgagna verður hátt. Það getur vel verið að þessir aðilar treysti sér ekki til þess og vilji að við setjum þetta í lög svo þeir geti ráðið eitthvað við það. Það er ekki það sem ég þarf á að halda. Ég treysti mér til að vinna með það og ég treysti mér til að vinna með það í þinginu á hverjum tíma ef við þurfum að taka sérstaklega á því þar til að útfæra þetta nánar ef menn misbeita valdi sínu.

Sama gildir með stúdentsprófið. Það er kveðið á um það í nefndarálitinu með mörgum greinum — ég hef ekki tíma til að lesa það upp einu sinni enn í þessu tveggja mínútna svari — að stúdentspróf á að veita áfram almennan aðgang að háskólanámi, það er tekið sérstaklega fram og það á að hindra það að háskólar þurfi að krefjast sérstaks undirbúningsnáms til inngöngu í deildir skólanna. Þetta er veganestið sem einingahópurinn fær. Standi hann ekki við það þá skal ég standa hér í ræðustólnum með hv. þm. Bjarna Harðarsyni og gagnrýna það. En að fara að setja það hér í lög og halda að ég og þeir átta aðrir sem eru með mér í menntamálanefnd séu best til þess fallnir að gera þetta væri fullkomið vanmat á skólasamfélaginu. Ég treysti því miklu betur til þess. Það mun gera þetta betur en ég og þess vegna samþykki ég þetta svona.